Í viðtalsþætti við Michael Jackson var m.a. fylgst með því þegar hann fór og keypti rándýrar ljósakrónur fyrir heimili sitt, Neverland. "Þú átt fínar ljósakrónur, af hverju viltu kaupa þessar?" Svar hans var á þá leið að allir í hans samfélagsþrepi ættu svona ljósakrónur og hann yrði að eiga þær líka til að geta boðið fólkinu heim!
Í örsamfélaginu á Íslandi eru allir í einu og sama þjóðfélagsþrepi - eða svo er okkur a.m.k. sagt. Það þýðir að enginn má skera sig úr. Ég hef þekkt menn sem alltaf keyptu sér nýjan bíl í sama lit eldri bíllinn var ... til að láta lítið bera á velgengni sinni! Í stærri samfélögum er litróf mannlífsins fjölbreyttara en á Íslandi.
Hjarðhegðun má finna innan samfélagskima en sjaldgæft er að hegðun / atferli / tíska nái til heilu þjóðanna eins og gerist iðulega hérlendis, sbr. þekkt dæmi um að allir þurfi að eiga fótanuddtæki, tiltekinn vasa, svona úlpu, þessa skó, drekka sama orkudrykkinn o.s.frv. Heildsalar í útlöndum sem skoða sölutölur út frá mannfjölda hljóta margir að hafa ímyndað sér að innflytjandinn á Íslandi sé markaðssnillingur, en ekki áttað sig á hjarðhegðuninni sem einkennir landsmenn, því Íslendingum líður best í hjörð, hóp eða flokk. Þessari hegðun fylgir margvísleg áhætta. Þetta er áhættuhegðun, því ekki er víst að flokkurinn þrammi alltaf í átt sem hentar öllum í hópnum.
Þetta er nefnt hér í samhengi við varnaðarorð úr kveðjuræðu George Washington, sem vitnað er til hér í þessu viðtali. Washington mun hafa varað menn við því að taka flokkshollustu fram yfir hollustu við land og þjóð, því flokkar eigi það til að fara að þjóna eigin hagsmunum og þröngri valdaklíku. Í viðtalinu er fleiri viðvörunarorð að finna, t.a.m. um það hvernig fjölmiðlar, sérfræðingar og flokkar verða viðskila við þau gildi sem liggja hlutverki þeirra til grundvallar og hvernig það getur hent besta fólk að selja sálu sína. Slíkum "vitum" er ekki gott að treysta. Áminningin er klassísk: Ef við viljum lifa í frjálsu samfélagi og ef við viljum að þjóðarskútan sigli slysalaust, þá verðum við að taka ábyrgð á eigin vegferð, en ekki þramma hugsunarlaust í þá átt sem flokkurinn fer á hverjum tíma.
Ná þessi orð til Íslendinga, sem fá þau skilaboð frá RÚV að maðurinn sem slíkt mælir sé "rugludallur"? Í örsamfélaginu búa Íslendingar kannski við fleiri hugsana-hindranir en menn í stærri þjóðfélögum, því fæstir vilja skera sig úr hópnum, ekki teljast "sérvitur", hvað þá "umdeildur". Ef allir aðrir eru byrjaðir að hlaupa þá er best að kaupa sér hlaupaskó og byrja líka!
Hjarðhegðun er eitt stærsta vandamál Íslendinga. Fylgispekt við ríkjandi hugsun gerir alla stjórn auðveldari og allt heilbrigt viðnám erfiðara. Á þetta spila stjórnvöld og ríkisreknir fjölmiðlar með þeim afleiðingum að þjóðin afneitar jafnvel augljósum sannindum svo sem þeim að kynin séu aðeins 2, karl og kona. Dietrich Bonhoeffer kallaði slíka hegðun heimsku, en sagði hana þó ekki stafa af vitsmunaskorti, heldur af siðferðilegri uppgjöf. Sú uppgjöf birtist í því að menn þora ekki að hugsa sjálfstætt ef það kostar einhvers konar óhagræði. Í þessu felst að menn afsali sér siðferðilegri ábyrgð (eins og læknarnir, fjölmiðlamennirnir og sérfræðingarnir sem RFK jr. nefnir) og ýti frá sér efasemdum í skiptum fyrir þægindin sem felast í því að vera eins og allir aðrir.
Líta má á líf okkar sem próf. Einkunn okkar á því prófi ræðst ekki af því hversu hátt við skorum á greindarprófi, heldur því hvort við erum tilbúin til að líta inn á við og nota samvisku okkar og tala út frá sannfæringu. Það er hinn sanni prófsteinn á það hvort við höfum lifað sem menn eða sem læmingjar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)