Lágpunktur í sögu Alþingis: Óvirðing við lýðræðislegar hefðir, gegn stjórnarskrá, trúnaðarbrot gagnvart kjósendum.

Frumvarpið um bókun 35 er líklega mesti smánarblettur sem fallið hefur á Alþingi frá stofnun lýðveldisins árið 1944. 

Útskýring: Þingmenn fara með löggjafarvald í umboði íslensku þjóðarinnar og eru þannig í raun umboðsmenn kjósenda sinna, kosnir til að gæta hagsmuna þeirra á Alþingi. Eins og aðrir umboðsmenn starfa þingmenn á grunni persónulegs trausts, þ.e. þeim hefur verið treyst fyrir þessari ábyrgð á grundvelli þess að þingmaðurinn auðsýni heilindi, noti alla sína dómgreind og svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum sínum. (Þetta á einnig við um varaþingmenn sem kjörnir hafa verið til að koma inn á Alþingi í forföllum þingmanna). 

Grundvallarregla í íslenskum, norrænum, engil-saxneskum og Rómarrétti, er sú að umboðsmaður getur ekki afhent umboð sitt öðrum manni án yfirlýsts samþykkis umbjóðandans (í þessu tilviki kjósandans). 

Þetta þýðir að þingmenn geta ekki afhent öðrum umboð til að koma fram sem handhafar íslensks löggjafarvalds. Þeim er m.ö.o. óheimilt að afhenda öðrum vald til að taka þátt í umræðum um fyrirhuguð lög, þeim er óheimilt að afhenda öðrum vald til að kjósa um lög sem eiga að gilda á Íslandi og þeim er óheimilt að afhenda öðrum ákvörðunarvald um efni og innihald lagareglna sem gilda eiga hérlendis. 

Ástæðan er sú að allar þessar skyldur verða þingmenn að annast persónulega enda hafa þeir verið persónulega kosnir til þess - og bera persónulega ábyrgð gagnvart kjósendum á grundvelli þess trausts sem kjósendur hafa sýnt þeim. Lög um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 undirstrika þetta: Enginn má taka til máls í umræðum á Alþingi nema þeir sem löglega hafa verið kjörnir til þingmennsku.  

Í stuttu máli snýst þetta um persónulega ábyrgð þingmanna við kjósendur sína, um virðingu við lýðræðislegar hefðir, um aldagamlar meginreglur laga um hlutverk og skyldur umboðsmanna - og síðast en ekki síst - um það drengskaparheit sem þingmenn hafa sjálfir undirritað, sbr. 47. gr. stjskr., sem felur í sér yfirlýsingu um að viðkomandi skuldbindi sig til að virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins. 

Allt er þetta til áminningar um og staðfestingar á að frumvarpið um bókun 35 er hreinasta ósvinna, dónaskapur við kjósendur, ósvífni gagnvart lýðveldinu, óvirðing við stjórnarskrána, brot á þeim skyldum sem þingmenn (og ráðherrar) hafa persónulega skuldbundið sig til að sinna og virða. 

 

 

 


Bloggfærslur 9. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband