Ljóðrænn texti um ekki svo ljóðrænt viðtal.

"Íslandi stendur ekki aðeins hætta af stórveldi meginlandsins sem ásælist auðlindir landsins til sjávar og sveita, ókjörnir embættismenn ríkisins hafa hreiðrað um sig í áratugi og gert lýðræðislega kjörnum fulltrúum sífellt erfiðara fyrir að koma pólitískum málum sínum í gegn.
Arnar Þór Jónsson vekur athygli á uppsagnarbréfi Gunnars Braga Sveinssonar til ESB og segir að misræmi sé í enska textanum sem sendur var til Brussel og þeim íslenska sem þjóðin fékk að sjá. Hann vill að bréfin verði birt hlið við hlið svo fólk átti sig á hver munurinn er. Segir Arnar Þór ekki útilokað að enska textanum hafi verið breytt af ókjörnum embættismönnum til að svo liti út að einungis væri um hlé á aðildarviðræðum að ræða en ekki uppsögn umsóknarinnar. Reynist það rétt er um sviksamleg störf embættismanna utanríkisráðuneytisins að ræða sem þjóna öðrum herrum en lýðræðislega kjörnum valdhöfum.
Stjórnarskráin er síbrotin en ekkert gert, ráðherra skrifar undir breytta bindandi utanríkisstefnu Íslands sem aðlöguð verður að utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Ekki mun meirihluti þings í gíslingu evrópusambandssinna víkja ráðherra sem vinnur í trúnaði við ESB úr starfi. Það mun þjóðin hins vegar gera næst þegar tækifæri gefst í almennum þingkosningum.
Ástandið sýnir þörf á stjórnlagadómstól sem tekur fyrir mál og sker úr um hvort þau hlíti stjórnarskrá lýðveldisins eða ekki. Það reglugerðafargan sem vélrænt er skellt yfir þjóðina frá ESB skerðir athafnafrelsi landsmanna og eykur skriffinnskukostnað.
Fjölmiðlar, svikulir stjórnmálamenn og embættismenn íslenska djúpríkisins hygla sjálfum sér á kostnað þjóðarinnar. Þeirra vegna má ekki ræða mörg mál og þöggun ríkir, almenningur má ekki vita sannleikann. Litlu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur er kosinn, sex hliðar teningsins sýna alltaf sömu niðurstöðu þegar honum er kastað. Eins mála flokkar og einskis mála flokkar hafa völdin og verja og smyrja hver aðra.
Landsmenn eru skattpíndir fyrir einsleitar rúv-fréttir sem eru eins og skólp úr bilaðri skólpleiðslu og landsmenn skildir eftir með fýluna. Vók kemur landsmönnum í heilaþvegið mók og djúpríkið hlær og fitnar eins og púkinn á fjósbitanum.
En víkingar Íslands eru að vakna, þökk sé verndara íslenskra karlmanna, sem hvetur þá til dáða. Þá er gott að þeir láti sér vaxa skegg eins og hin góða fyrirmynd séra Geir Waage, pastor emeritus, gerir." Þessi myndræni (og ljóðræni) texti er samantekt Gústafs A. Skúlasonar á samtali mínu við hann og Írisi Erlingsdóttur, sem birtist á Netinu rétt í þessu og finna má hér

Lexía sem allir Íslendingar ættu að þekkja

Hér er lexía um alþjóðastjórnmál í boði viðskiptajöfurs að nafni Arnaud Bertrand, sem hann skrifaði á X.com eftir að gagnkvæmum tollahótunum milli USA og ESB lauk með fullnaðarsigri USA: "Ein af undirstöðureglum alþjóðastjórnmála er að veikleiki framkallar aðeins frekari yfirgang. Við lifum nú tímabil evrópskrar niðurlægingar." Íslendingar ættu að hafa drukkið þessa lexíu með móðurmjólkinni, því öldum saman bjó Ísland við erlenda yfirstjórn sem sýndi Íslendingum vaxandi yfirgang eftir því sem aumingjadómurinn hér varð meiri. Þegar ástandið var sem verst létu Íslendingar sér lynda að senda menn með bænaskjöl til konungs um lagalegar úrbætur fyrir landið. Nú horfum við upp á það í beinni útsendingu að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands haga sér eins og fulltrúar ESB gagnvart Íslandi en ekki fulltrúar Íslands gagnvart ESB, sbr. utanríkisráðherrann, sem hefur orðið uppvís að því að leyna almenning upplýsingum um fyrirhugaða refsitolla ESB á kísilmálma og auk þess skuldbundið Ísland til þess að laga utanríkisstefnu sína að stefnu Evrópusambandsins. Eins og Stefán Einar Stefánsson o.fl. hafa bent á, þá hefur ráðherrann gert þetta án samráðs við Alþingi. Með framgöngu sinni hefur ríkisstjórnin sett varnarsamning okkar við USA í uppnám og afleiðingarnar birtast m.a. í þessari tollahækkun úr 10% í 15%. 

Í stað þess að gagnrýna framgöngu utanríkisráðherra hafa fyrirsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins á Alþingi tekið upp á því að hrósa henni, Ólafur Adolfsson í gær með því að segja hana hafa verið "ærlega" á þingnefndarfundi og nú formaður XD með því að segja hana standa sig vel með því að segja HIÐ AUGLJÓSA að tollahækkanir á kísilmálma samræmist ekki EES samningnum. Allt þetta fólk virðist vera sammála um að eina "planið" sé að senda utanríkisráðherrann með bænaskjal til ESB um lækkun!

Með svona "sjálfstæðismenn" á Alþingi er sjálfstæð þjóðarinnar í mikilli hættu. Vafalaust hafa þau sínar ástæður fyrir því að ganga ekki of hart fram gagnvart Viðreisn. En pólitískir hagsmunir Sjálfstæðisflokksins af því að geta átt samstarf við Viðreisn á síðari stigum verða að víkja fyrir frumskyldu flokksins, sem er sú að verja fullveldi og sjálfstæði Íslands. Það gera talsmenn Sjálfstæðisflokksins ekki með því að bera blak af ráðherrum sem grafa undan lýðveldinu.

 

 


mbl.is Tollar á vörur frá Íslandi hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. ágúst 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband