14.8.2025 | 09:36
,,Sjálfan sig selur enginn nema með tapi"
Snemma á 20. öld hófst útflutningur á fosfati frá Nauru, en efnið var þar í miklum mæli eftir fugladrit í árþúsundir. Erlendir fjárfestar fleyttu rjómann af hagnaðinum en fjárhagur Nauru óx þó og dafnaði þar til ,,lagerinn" kláraðist í kringum 1990. Eftir sitja íbúar Nauru með sárt ennið og efnahagslíf í rúst.
Í skammsýni sinni virðast Íslendingar ætla að gera sömu mistök: Fylla firðina af laxeldi sem veitir tímabundna atvinnu en horfa fram hjá mengun, álagi á innviði og þeirri staðreynd að stærstur hluti ágóðans endar í vasa þeirra erlendu fjárfesta sem eiga fyrirtækin. Um leið er erlendum fyrirtækjum leyft að flytja úrgangsefni til Íslands og ýmist dæla þeim í hafið eða í berglögin með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífsgæði þeirra sem landið byggja. Samhliða er undirbúið að teppaleggja landið með (óþörfum) vindmyllugörðum og skaða þannig bæði umhverfi og ásýnd. Vandséð er hvers vegna ferðamenn ættu að leggja leið sína til lands sem búið verður að skaða með framangreindum hætti. Þá myndi ferðaiðnaðurinn hrynja einnig. Harmsaga Nauru-manna, trúgirni þeirra og skammsýni, yrði hjóm við hliðina á dæmalausri fávisku íslendinga.
Sá sem þetta ritar er sennilega einn örfárra Íslendinga sem í aðdraganda síðustu þingkosninga sóttu fundi umhverfissinna, virkjanasinna, andstæðinga laxeldis, sjávarútvegsfyrirtækja o.s.frv. og fékk samanburð á málflutningi allra ríkisreknu flokkanna. Þar kristallaðist að ríkis-flokkarnir hafa í raun engin prinsipp heldur það eina markmið að segja það sem talið er að fundarmenn vilji heyra. Afleiðingin var sú að flokkarnir töluðu tungum tveim og sitt með hvorri. Þessi frétt er til áminningar um að græðgi og skammsýni eru ekki góðir vegvísar fyrir nokkra einustu þjóð.
Tilvitnunin í fyrirsögninni er frá Dr. Sigurbirni Einarssyni biskup, rituð eftir minni.
![]() |
Þetta er hræðilegt ástand |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)