9.8.2025 | 09:22
Við lítinn vog, í litlum bæ er lítið hús, lítið hús ...
Í litlu tveggja hæða fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu er komið gat á þakið. Jónas á efstu hæðinni er ekki sáttur, því loftið inni hjá honum er orðið stórskemmt. Jónas talar um þetta við alla sem hann hittir í stigaganginum og að lokum er haldinn húsfundur. Niðurstaða húsfundar er sú að þakviðgerð myndi tæma hússjóðinn og rúmlega það, þannig að taka þyrfti viðbótarlán og hækka húsgjöldin. Meirihluti íbúa er ekki til í það og niðurstaðan er sú að ekki verður gert við þakið, en hússjóðurinn verður notaður til að halda grillpartý og leigja hoppukastala. Það hefur alltaf verið svo góð og vinaleg stemning í húsinu. Henni verður að viðhalda. Svo lekur heldur ekki hjá neinum öðrum en Jónasi. Húsfundur ákveður líka að hússtjórnin ein geti hengt upp tilkynningar / fréttir á töfluna í forstofu hússins. Hússtjórnin keypti þessa töflu og á að ráða hvað birtist þar. Jónasi verður a.m.k. ekki leyft að tjá sig þar. Svo er búið að kjósa nýtt fólk í stjórn húsfélagsins. Nýi formaðurinn hefur búið lengi í Dusseldorf og þekkir fólk í Þýskalandi sem þekkir alls konar nýjar reglur um fjölbýli og tengslanetið má örugglega nota til að kaupa lyftu á hagstæðu verði, enda hefur formaðurinn sannfært alla stjórnina um að lyftur þurfi að vera í öllum fjölbýlishúsum, það er krafan í öllum sambærilegum húsum í Þýskalandi. Svo er reyndar flutt fólk inn í hjólageymsluna og notar þar vatn og rafmagn, en það er allt í lagi því þetta tilheyrir bara sameigninni og greiðist af reikningum húsfélagsins, en ekki af íbúunum sjálfum sko. Grillpartýið verður haldið núna síðsumars, þegar veðrið verður gott og vonandi mæta sem flestir íbúuanna í góðu stuði - og passi sig bara á að ræða alls ekki það sem er að húsinu. Þá er vonandi hægt að halda áfram í góðri sambúð þar sem allir eru bara næs. P.S. Nýja fólkinu í hjólageymslunni verður að sjálfsögðu boðið og þau fá sólstólana sem gamla og hruma fólkið á neðstu hæðinni keypti í fyrra. Stólarnir voru nefnilega geymdir í sameigninni og tilheyra nú húsfélaginu þar sem ekki var greitt neitt ,,aðstöðugjald" fyrir stólana (ný regla sem birt verður á húsfélagstöflunni mjög fljótlega).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)