Í sjónvarpsviðtali við Guðna í Sunnu fyrir mörgum árum tjáði Guðni sig um það þegar hann fór í samkeppnisrekstur við ,,Kolkrabbann" á Íslandi. Spurður um skýringar á góðum árangri sínum sagði Guðni: ,,Gæludýr þrífast ekki vel í frjálsri náttúru". Hið sama má segja um svo margt annað sem mennirnir ala við brjóst sitt, hvort sem það eru fagrar hugmyndir eða göfugar hugsjónir.
Í dag voru fundargestir hjá SÞ minntir á að hreinskilni á sér of fáa málsvara í sal sem iðulega er fylltur með innantómum orðum. Bandaríkjaforseti hélt ræðu á allsherjarþingi SÞ sama dag og forsætisráðherra Íslands. Sú síðarnefnda notaði tímann til að státa sig af stöðu jafnréttismála á Íslandi á meðan sá fyrrnefndi benti á að jafnréttið stendur á brauðfótum meðan ríkisstjórn Íslands og annarra Evrópuríkja stuðla að taumlausum innflutningi fólks frá öðrum menningarheimum þar sem konur, samkynhneigðir o.fl. eru annars flokks borgarar.
Áhugamenn um stjórnmál sjá hér tvær gjörólíkar ræður: 1. Forsætisráðherra smáríkis sem státar sig af stöðu sem hún bjó ekki til sjálf og vinnur sjálf að því að skaða. 2. Valdamesti maður heims stingur á fjöldamörgum uppblásnum blöðrum sjálfsupphafningar og ósanninda sem fjölmiðlar hafa blásið út í boði þeirra sem misnotað hafa pólitískt og peningalegt vald síðustu ár.
Nýjasta viðurkenningin á þeirri ritskoðun, þöggun og umræðustjórnun sem viðgekkst í ,,kófinu" birtist í dag á vef Bandaríkjaþings um það hvernig Google og Youtube gengu erinda þeirra sem stýrðu því hvað mátti heyrast og hvað ekki. Hér er fulltrúi Biden stjórnarinnar að lýsa því hvernig samfélagsmiðlar voru ,,hvattir" til að ritskoða efni sem Biden-stjórnin var ósammála. Þessi vinnubrögð studdi Fjölmiðlanefnd dyggilega með því að ganga til ,,samstarfs" við Facebook í viðamikilli alþjóðlegri ritskoðun með þeim ,,árangri" að þúsundir myndbanda með ,,röngum upplýsingum" voru ,,fjarlægð" af netinu.
Nýkominn af kristilegri samkomu þar sem æðstu menn Bandaríkjanna töluðu út frá sinni kristnu trú, benti forseti Bandaríkjanna á að ,,leiðtogar" Evrópu tilbiðja falsguði í formi kennisetninga sem þeir hafa sett á stall og kosið að tilbiðja í stað Guðs, þar á meðal loftslagskredduna sem sett hefur myllustein um háls Evrópuþjóða á meðan Kína og fleiri þjóðir soga til sín evrópska iðnaðarframleiðslu með kolaknúnum orkuverum.
E.S. Margt má segja misjafnt um forseta Bandaríkjanna - eins og okkur öll hin - en hvað má segja um starfsfólk SÞ sem fannst það góð hugmynd að slökkva á rúllustiganum þegar hann var kominn í neðsta þrepið og slökkva svo á textavélinni sem Kristrún Frostadóttir fékk að nota sama dag? Það má kallast ljóðrænt réttlæti að ,,bilunin" olli því að DT fékk framlengdan ræðutíma sem hann notaði svo eftirminnilega í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)