Aðgát skal höfð.

Eftirfarandi línur eru ekki settar á blað í þeim tilgangi að láta brenna mig á báli, heldur til að minna á mikilvægi þess að við beitum eigin dómgreind og innsæi til að tempra kennivald lækna o.fl. Þessi færsla er ekki skrifuð til að taka afdráttarlausa afstöðu gagnvart fóstureyðingum / þungunarrofi, sem eru alltaf erfið siðferðileg viðfangsefni og varða nánustu tengsl og viðkvæmar tilfinningar, en vissulega líka samfélagið og lögin á hverjum tíma. Umræðu um slík málefni má ekki drepa niður eða banna. Þegar um er að ræða vandmeðfarin mál þarf að gæta ítrustu nærgætni, tillitssemi og virðingar, en forðast um leið að rjúfa hið nauðsynlega samhengi hlutanna.

Þessi litla frétt í Mogganum í dag segir frá 4ra ára dreng sem kom í heiminn "of snemma eftir að fylgja móður hans hætti að virka eftir 20 vikur. Læknar tilkynntu henni að aðeins 10% líkur væru á að barnið myndi lifa en hún var látin fæða hann eftir 28 vikna meðgöngu. Henni var einnig tjáð að Jamie myndi glíma við þroskahömlun og námsörðugleika. Í dag er hann þó langt á undan jafnöldrum sínum á ýmsum sviðum". Skv. fréttinni hefur Jamie vakið heimsathygli vegna stærðfræðikunnáttu sinnar og getur reiknað á a.m.k. fimm tungumálum. 

Fréttin er gleðileg, en vekur lesandann líka til umhugsunar. Hið afhelgaða efnishyggjusamfélag okkar tíma viðurkennir sérstöðu og réttindi allra fyrir lögunum, þ.e. allra nema ófæddra barna í móðurkviði, sem ekki öðlast réttarvernd fyrr en eftir lok 22. viku meðgöngu. Fyrir þann tíma er barnið ekki talið mennskt og án mannréttinda. Hvaða líffræðilegri tegund tilheyrir fóstur fyrir þetta tímamark, þ.e. áður en það skyndilega breytist í mannveru?  

 

Með lögum nr. 43/2019 var hugtakið fóstureyðing fellt úr lögum en þungunarrof tekið upp í staðinn þar sem sumir töldu fyrrnefnda hugtakið "gildishlaðið, villandi og jafnvel rangt". Í umræðum um frumvarpið í þingsal kom m.a. fram að ekki ætti að tala um fóstur fyrir 12. viku, heldur "frumuklasa", en sú orðnotkun er til þess fallin að svipta fóstur mennsku og mannhelgi.

Vísbendingar má víða finna um að nú sé að eiga sér stað einhvers konar siðrof í vestrænum samfélögum, þar sem kerfisbundið er horft fram hjá hinu siðferðilega samhengi. Við þær aðstæður er orðið hættulega stutt í tómhyggju sem einkennist af andstöðu við burðarstoðir samfélagsins, afneitun siðalögmála og upphafningu efnishyggju. Þegar siðferðilegu heildarsamhengi hefur verið afneitað og stigið inn í tómhyggjuna er hægur leikur að dulbúa ofbeldi sem góðmennsku og órétt sem réttlæti. 

 

Undrabarn sem var vart hugað líf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband