24.2.2023 | 10:26
Sinnuleysi um þjóðmál framkallar pólitískar ófarir
Í gær birti Telegraph frétt þar sem sagt er frá því að embættismenn í heilbrigðiskerfinu séu nú að setja upp viðbragðsáætlanir vegna mögulegs heimsfaraldurs, í þetta sinn fuglaflensu. Sú flensa bætist þá við langan lista fyrri heilsufarsógna: Bólusóttar, svínaflensu, Zika, ebólu, apabólu og C-19. Ef marka má athugasemdir breskra lesenda hafa þeir engan húmor fyrir stjórnarfari þar sem sérfræðingar hóta ítrekað að hrifsa til sín valdatauma.
Hérlendis var þingræðið afnumið í kófinu, mannréttindaákvæði stjórnarskrár tekin úr sambandi og landinu í reynd stjórnað með tilskipunum í stað laga. Þetta létu Íslendingar sér vel líka og virðast enn ekki átta sig á ógninni sem þetta fordæmi leiðir yfir okkur.
Næsta alvarlega flensa sem birtist við sjóndeildarhringinn mun gefa sérfræðingum nýtt tilefni til að stýra í átt til einhvers konar heilbrigðis-harðstjórnar. Ef marka má reynsluna byggir slíkt stjórnarfar á því að "umhyggjusemi" yfirvalda réttlæti víðtækar frelsisskerðingar.
Við þessar aðstæður gleymist að ákvarðanir sem varða daglegt líf og frelsi eiga að vera teknar af lýðkjörnum fulltrúum almennings og á grundvelli laga, þar sem menn starfa innan stjórnarskrárvarins ramma sem ætlað er að tryggja að hver einasti þáttur valdsins geti virkað eins og bremsa gagnvart öðrum greinum ríkisvalds.
Ef öryggisventlum stjórnarskrár er hent út um gluggann og þess í stað stjórnað í nafni "umhyggju", "heildarhagsmuna" o.fl., þá er hættan sú að sérfræðingar velji svörin út frá of þröngu sjónarhorni. Sagan sýnir að við slíkar aðstæður er borgaralegt frelsi fyrr eða síðar lagt á höggstokkinn í nafni "almannahags". Slík sérfræðingastjórn er andstæð öllu því sem lýðræðið og þrígreining ríkisvalds á að tryggja. Víðsýni er þá fórnað fyrir þrönga sérfræðisýn og stjórnskipulegu aðhaldi kastað fyrir róða.
Ef stutt er í næsta heimsfaraldur þá þarf að eiga sér stað alvöru umræða um það stjórnarfar sem slíkt mun leiða yfir okkur. Þá þarf m.a. að ræða hvernig almenningur geti betur varið og virkjað öryggisventla stjórnarskrár, laga og stjórnmála. Stórar ákvarðanir eiga að byggjast á lögum, grundvallast á lýðræðislegri umræðu og heildrænni sýn, en ekki þröngri sýn embættismanna í einum hluta stjórnkerfisins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.