Siglt í þoku?

Stjórnmálaflokkar byggja starf sitt á tilteknum grunngildum. Þessi grunngildi eru mikilvæg því öll stefnumörkun á að taka mið af þeim. Í daglegum ólgusjó notast kjörnir fulltrúar við þessi grunnviðmið til að halda sig á réttri braut. Þegar menn hins vegar missa sjónar á þessum kennileitum lenda þeir í hafvillum, sem er ekkert gamanmál, hvorki fyrir áhöfn né farþega. Eru þetta orðin örlög Sjálfstæðisflokksins? 

Til upprifjunar

Hinn 26. maí 1929 birtist sú frétt í Morgunblaðinu að Sjálfstæðisflokkur hefði verið stofnaður daginn áður, með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Eftirfarandi tvö aðalstefnumál voru nefnd til sögunnar:

  1. Að vinna að því að undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina [...].
  2. Að vinna að innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

,,Ótækt og fjarstæðukennt" segir fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins

Hvernig ber að skilja þá staðreynd að nú sé lagt fram frumvarp í nafni Sjálfstæðisflokksins, þar sem því er slegið föstu sem meginreglu að EES reglur skuli ganga framar öðrum almennum lögum frá Alþingi? Ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, sem manna best þekkir forsögu og framkvæmd EES samningsins segir þetta bæði ,,ótækt og fjarstæðukennt", sbr. leiðara Mbl 28.3. sl. Stefán Már Stefánsson prófessor, sem manna best þekkir réttarsögu EES og stjórnskipuleg álitaefni í því samhengi, segir að með frumvarpinu sé vegið að réttaröryggi borgaranna.

Án stefnufestu er enginn stöðugleiki

Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkur sem kýs að standa svona að lagasetningu? Hvernig má réttlæta það að lagasetningarvald sé framselt úr landi, úr höndum Íslendinga, þvert gegn grunnstefnu flokksins? Í Morgunblaðinu í dag má lesa svör utanríkisráðherra (bls. 3), þar sem hún segir efnislega að frumvarp hennar (um að erlendar réttarreglur skuli almennt teljast rétthærri en lög frá Alþingi) feli ekki í sér framsal á löggjafarvaldi. Í sama blaði (bls. 26) skrifar Björn Bjarnason grein sem virðist byggja á þeirri fölsku forsendu að EES reglur tryggi rétt íslenskra borgara betur en íslensk lög. Í greininni kemst Björn einnig að þeirri niðurstöðu að lagabreyting sem staðfestir almennan forgang erlendra reglna feli í sér ,,enga skerðingu á fullveldi eða sjálfstæði íslenska ríkisins". 

Ég hef tjáð mína skoðun, bæði á almennum vettvangi og í einkasamtölum við forystu Sjálfstæðisflokksins. Nú er komið að hinum almenna flokksmanni að taka afstöðu. Það gera menn með því að lesa texta frumvarpsins og beita sinni eigin dómgreind. Textinn er stuttur og enginn þarf lagapróf til að skilja hvað hann felur í sér, heldur aðeins heilbrigða skynsemi og óbrenglaða ályktunarhæfni. Álitaefnið er einfalt: Samræmist frumvarpið grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins um það að Íslendingar skuli sjálfir ráða eigin málum og hafa frelsi til að marka sjálfstæða stefnu til umbóta á hag allra stétta?     

Þessu þarf að svara út frá grunnviðmiðunum sem áður voru nefnd. Ef menn kjósa að gleyma grunnviðmiðunum þurfa þeir hinir sömu að velta fyrir sér hvort þeir séu í réttum flokki. Án grunnviðmiða verður engin stefnufesta, enginn stöðugleiki. Án stöðugleika geta menn ekki tekist á við verðbólguvandann, innflytjendamálin, hallarekstur ríkissjóðs o.s.frv. 

Hvert er verið að stefna?

Varla er það markmið þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins að ganga að flokknum dauðum. Hitt má þó vera nokkuð ljóst, að ef menn fara ekki að finna aftur kennileiti sjálfstæðisstefnunnar, ef menn ætla áfram að sigla í þoku og stýra út frá villuljósum fremur en þeim grunnviðmiðum sem best hafa reynst, þá er hætt við að Sjálfstæðisflokkurinn verði þurrkaður út í næstu kosningum. Sagan hefur sýnt að slík verða örlög flokka sem slitna af rót sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband