Hvar á heilbrigð skynsemi sér skjól?

Þegar reynt er að skilja það sem er að gerast í nútímastjórnmálum, bæði hérlendis og erlendis, þá má skoða hvaða mynd teiknast upp út frá eftirfarandi punktum. 

Til er orðin stétt manna sem telur sig betur upplýsta en alþýðan og telur að ,,göfugmennskan" knýi þau til að hafa vit fyrir öðrum. En af því alþýða manna er talin svo fáfróð og fordómafull þá kýs hin ,,upplýsta stétt" ekki að eiga rökræður við alþýðuna og hefur í raun gefist upp á að reyna að sannfæra óupplýsta meðbræður og -systur með samtali. Þess í stað hefur niðurstaðan orðið sú að skapa nokkurs konar hliðarveruleika, þar sem settar eru upp nýjar stofnanir við hlið þeirra sem fyrir eru.

Ráðuneyti, dómstólar og löggjafarþing fá að standa áfram og starfa áfram, en nýju stofnanirnar leysa þær þó í raun af hólmi. Það besta við þetta fyrirkomulag er að í hliðarveruleikanum er hægt að taka allar ákvarðanir sem máli skipta ... án þess að þurfa nokkurn tímann að mæta ,,fáfræðingunum" (venjulegu fólki). 

Þetta er ,,lýðræði" 21. aldar, þar sem stærstur hluti almennings er algjörlega áhrifa- og valdalaus, en fámennur hópur vélar um allt daglegt líf og stýrir því sem má segja og gera. Þetta er t.d. gert með því að gera fólk, fyrirtæki, fjölmiðla og fræðimenn háða ríkisstyrkjum. Með þessu móti má þrengja að umræðu og kveða niður gagnrýni. Fari einhver út fyrir mörkin má stimpla orðræðu viðkomandi sem ,,hatursorðræðu" til að réttlæta ritskoðun, útilokun og þöggun. Beinni þvingun er aðeins beitt í neyðartilvikum, en þó alltaf undir yfirskini umhyggju. Slík góðlátleg harðstjórn kallast nú ,,frjálslyndi". Svart er hvítt, stríð er friður. Veruleiki 1984 er genginn í garð.  

En það er ljós í myrkrinu: George Orwell taldi sjálfur að heilbrigð skynsemi myndi við þessar aðstæður lifa og viðhaldast í brjóstum vinnandi fólks. Alþýðan myndi m.ö.o. áfram kunna skil á réttu og röngu, sannleik og lygi, þótt yfirstéttin tapaði áttum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband