,,Þú strumpar falskt" - ,,Nei, hann strumpar bara öðruvísi"

í strumpalandiSamfélagsumræða á Íslandi hefur verið yfirtekin af fólki sem gefur sig út fyrir að hafa öll svör á reiðum höndum. Þetta er umræðuhefð sem er húmorslaus og umber ekki gagnrýnar spurningar. Allir eru með svör, en spurningar eru illa séðar. 

Gagnrýnin hugsun er vinsælt spari-hugtak sem er notað í hátíðarræðum. Í daglegri framkvæmd er óvinsælt að menn beiti gagnrýninni hugsun, a.m.k. ef það þýðir að menn vogi sér að hugsa öðru vísi en aðrir. 

Fyrirsögnin hér að ofan er úr Strumpasöng með Halla og Ladda. Þetta var stutt samtal sem undirstrikaði kröfu hópsins um eina rödd, en er líka áminning um mikilvægi þess að við fáum að vera frjáls og sjálfstæð.

Þversagnir í flatneskjunni 

Það er erfitt að skilja þessa þörf fyrir andlega flatneskju, fyrir að allir sem tilheyra þessum eða hinum hópnum hugsi eins. Það líka skrýtið þegar örþunn góðsemisgríman fellur við minnsta áreiti. Þessi skrýtna blanda af hroka og óöryggi kemur vel í ljós þegar einhverjum verður á að skilja ekki það sem öllum er ætlað að skilja, sjá það sem öllum er ætlað að sjá, segja það sem öllum er ætlað að segja. 

Ef við gefum okkur smá tíma til að hugsa, þá hljótum við öll að sjá að með þessu framhaldi breytist samfélag okkar í fangelsi, þar sem menn verða undir stöðugu eftirliti samborgara sinna en lifa þó í einsemd og viðvarandi ótta. Slíkt samfélag er gegnsýrt af vantrausti. Þar hugsa allir eins, tala eins, tilbiðja sömu falsguði og eiga enga aðra von en þá að ríkið komi þeim til bjargar.  

Hver reisir múrana?

Andleg flatneskja hefur eyðileggingarmátt sem hefur verið til sýnis á myrkustu tímabilum mannkynsins. Alræðisríkin sem flöttu út mannlífið með hugmyndafræði sinni létu borgarana sjálfa um að reisa fangelsismúra um hugsun, orð og athafnir. Byggingarefni þessara múra er alltaf það sama: Ótti.

Treystir þú þér til að sýna vilja, getu og djörfung til að ,,strumpa öðru vísi"? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband