8.4.2023 | 09:30
Uggvænleg þróun sem kallar á leiðréttingu
Alþjóðlegar fréttir birta endurtekin stef: Fjöldamótmæli gegn kjörnum fulltrúum; umbreytingar á vettvangi stjórnmálanna, þar sem gamlir flokkar verða svipur hjá sjón; popúlískir flokkar koma inn í staðinn (Ítalía, Ungverjaland, Spánn); óeirðir í Frakklandi, Brexit o.fl. Hérlendis birtist þetta m.a. í umræðu um Evrópumál og alþjóðavæðingu.
Í samfélagi sem kennir sig við lýðræði er ekki óeðlilegt þótt fólk andæfi þróun í þá átt að almenningur sé sviptur valdi og að allar ákvarðanir séu teknar ofan frá.
,,Samfélagsverkfræði"?
Við sitjum í vef sem verður sífellt þétt-ofnari, þar sem ráðuneyti, undirstofnanir, nefndir, ríkisfyrirtæki, embættismenn o.fl. móta reglurnar en bera enga ábyrgð og eru orðnir að eins konar ,,vélfræðingum" samfélagsins. Í háskólunum er þetta kallað ,,samfélagsverkfræði" og laganemar eru hvattir til að aðlaga sig þessu kerfi til að geta átt góðan starfsframa þar.
Lýðræðisskorturinn sem í þessu birtist er pínlegur fyrir þá sem tekið hafa að sér að halda uppi leiktjöldum lýðræðisins. Vandamálið verður enn erfiðara að fela þegar það gerist að reglurnar sem stafa frá ,,samfélagsverkfræðingunum" samfræmast illa áliti eða hagsmunum almennings sem við þær eiga að búa (dæmi reglugerð ESB um aukinn kolefnisskatt af flugi).
Því lengur sem þessi þróun heldur áfram, þeim mun meiri verður andstaðan við þetta fyrirkomulag. Engin samfélagshönnun / félagsleg vélfræði / samfélagsverkfræði getur komið í stað raunverulegs lýðræðis.
Meðan stjórnmálin bregðast ekki við með ábyrgum hætti t.d. með því að vernda frelsið (í stað þess að takmarka það og taka sér sífellt meiri völd yfir almenningi) mun spennan halda áfram að magnast milli búrókratíunnar annars vegar og stjórnmálahreyfinga sem vilja valdefla alþýðu manna.
Tveir pólar
Andstæðingar síðarnefndu tilhneigingarinnar kenna slíkar hreyfingar við ,,popúlisma". Eins og það er ljótt orð þá er valkosturinn ekki sérlega kræsilegur, þ.e. að sérfræðingar taki sér vald yfir almenningi, vilji hafa vit fyrir okkur, þrengi sífellt meira að daglegu lífi, einkaframtaki og atvinnurekstri, þenja út lagareglurnar og nota þær til að þjóna eigin hagsmunum á kostnað almennings.
Með þessu móti er maðurinn / borgarinn / einstaklingurinn smám saman leystur undan ábyrgð á sjálfum sér. Mennskan týnist og deyr í tómarúmi milli tveggja póla: Markaðarins (sem leysir okkur undan því að hugsa) og ríkisvaldsins (sem leysir okkur undan ábyrgð). Fórnarkostnaðurinn er sá að við glötum frelsi okkar. Þetta er uggvænleg þróun sem kallar á leiðréttingu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.