9.4.2023 | 12:56
Hverju skilarðu í hans hendur?
,,Himinn og jörð munu líða undir lok, en mín orð munu aldrei undir lok líða.
Hann sagði það. Síðan eru 19 aldir. Og jörðin stendur og himininn er ekki hruninn. En hans orð? Er það ekki úr gildi fallið?
Hvað veizt þú?
Um framtíðina veiztu ekkert - nema eitt: Sá himinn og sú jörð, sem er heimur þinn í dag, líða undir lok, hverfa þér. Allt þetta, sem nú fyllir huga þinn frá degi til dags, gufar upp, týnist út í tómið. Það hljóðnar allt, allur ys og allar raddir dvína og slokkna loks í fjarlægu, fjarlægu myrki, sem hylur þessa jörð og allt, sem henni heyrir. Þú hnígur út af, fellur í fang djúprar þagnar, áfram heldur jörðin á sinni hringferð, en skilur þig eftir, þig aleinan með það líf sem þú hefur lifað, þá samvizku, sem það líf hefur merkt, þá vitund, sem ekki slokknar og rúmar það eitt, að hún á að mæta Mannsins syni.
Þá veiztu eitt: Hans orð stendur, hans orð er satt.
Þér er stakkur skorinn, tímans barni, þér er markað skeið. Dauðinn verður sendur að sækja hvað Skaparans er. Hverju skilarðu í hans hendur?
Sú spurning mætir þér oft á lífsleiðinni. En þar kemur, að þú færð ekki vísað henni á bug. Þú verður sjálfur að birta svar lífs þíns - birta það í ljósi þess orðs, sem er eilíflega satt og líður aldrei undir lok."
Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð (1956), bls. 16-17.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.