Það er tímanna tákn að nú er öllu snúið á hvolf. Á Alþingi birtist þetta í endurteknum ys og þys út af smámálum á meðan stórmál eru töluð niður og látin sigla hjá í þögn. Að mínu viti er frumvarpið um bókun 35 dæmi um hið síðarnefnda. Með þessu er ég ekki að reyna að vera leiðinlegur. Ef einhver móðgast þá þykir mér það leitt.
30 ára reynsla
Allir sem fylgst hafa með störfum Alþingis þekkja hvernig EES reglur buna inn á þingið og eru afgreiddar þar umræðulaust. Í reynd hefur innleiðingarferlið verið hömlulaust í næstum 30 ár. Þessi reynsla er til marks um að valdið í EES samstarfinu liggur í Brussel en ekki í Reykjavík. Það sem ræður för er sífellt nánari samvinna ríkja innan ESB (og EES).
Frumvarpið um bókun 35 er til marks um að skriðþungi EES-réttarins er enn að aukast að íslenskum rétti. Ísland og önnur EFTA-ríki standa höllum fæti hvað varðar aðkomu að mótun reglna, ákvarðanatöku og túlkun í réttarframkvæmd.
Íslenskur réttur stendur frammi fyrir stórum áskorunum hvað viðvíkur markmiðum EES-samningsins um einsleitni við ESB-rétt. Fyrir liggur að stofnsáttmálar ESB hafa tekið umtalsverðum breytingum frá því að EES-samningurinn tók gildi hérlendis árið 1994, en stjórnskipunarreglur Íslands eru óbreyttar og gera ekki ráð fyrir því framsali ríkisvalds sem EES-samstarfið virðist útheimta í æ ríkari mæli. Framsæknar lögskýringar EFTA-dómstólsins hafa aukið á þennan vanda, jafnframt því að magna upp lýðræðishalla sem lengi hefur verið tilfinnanlegur í tilviki íslenska ríkisins og veikrar stöðu þess í EES-samstarfinu.
,,Yfirstjórnarskrá"
Í réttarframkvæmd á sviði Evrópuréttar hefur fjórfrelsið notið verndar sem nokkurs konar yfirstjórnarskrá. Þetta er grundvallaratriði sem allir þurfa að átta sig á: Til að tryggja réttareiningu á sviði réttar ESB (og EES) endurspeglast í réttarframkvæmd óþol gagnvart því að menn séu að reyna að hnika þessum reglum til með sérreglum í landsrétti.
Af þessu leiðir að orðalag frumvarpsins um almennan forgang réttilega innleiddrar ,,skuldbindingar samkvæmt EES samningnum" umfram almenn íslensk lög er opinn tékki, sem viðbúið er að túlkaður verði með framsæknum hætti í réttarframkvæmd. Með þessu er vegið að réttaröryggi íslenskra borgara. Þar fyrir utan er ljóst af reynslu sl. 30 ára og þeim atriðum sem fyrr voru nefnd hér að þegar búið er að samþykkja forgang EES réttar sem meginreglu er verið að þyrla ryki í augu Íslendinga með orðalagi frumvarpsins í þá átt að Alþingi geti mælt fyrir um annað. Þegar Íslendingar verða búnir að setja handlegginn í gin úlfsins mun verða litið svo á að viðleitni til að ,,mæla fyrir um annað" feli í sér viðleitni til að hefta fjórfrelsið.
Gagnrýnin umræða er holl, þótt hún geti vissulega verið sársaukafull
Íslendingar hafa allan rétt til að gera málefnalegar athugasemdir við það sem hér er að gerast. Í stað þess að berja niður umræðu á þvert á móti að hvetja til umhugsunar um hvert stefnir og hvað gera megi til að bregðast við þeim stjórnskipulega vanda sem uppi er og hvernig verja beri íslenska hagsmuni í þessu samhengi.
Að lokum: Þetta frumvarp er að mínu mati einnig alvarlegt í víðara og sögulegu samhengi. Um það mun ég fjalla nánar þegar tími gefst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.