Ætlar Alþingi að grafa undan sjálfu sér og gengisfella íslenskt lýðræði?

Í Íslendinga sögu Jóns Jóhannessonar prófessors (1909-1957) er gerð grein fyrir endalokum hins forna lýðveldis Íslendinga (930-1262). Meginorsökin er þar rakin til þess að Íslendingar sem fóru til Noregs gerðust handgengnir konungi og sóru honum trúnaðareiða. „Sá siður hlaut að verða hættulegur, ef konungur reyndi að ná völdum hér á landi“ [JJ, 331]. Í lýsingu Jóns kemur fram að þessir menn hafi fest sig í viðjum valdsins, því konungur hafði hér útsendara, njósnara og opinbera erindreka. Hinir handgengnu menn urðu af þessum ástæðum hættulegir sjálfstæði þjóðarinnar. Þeir sköpuðu konungi bæði tæki og tækifæri til að skipta sér af málefnum Íslendinga, því þeim var skylt að reka erindi konungs samkvæmt skipunum hans og gæta hagsmuna hans vandlega. Á þeim sannaðist að enginn getur þjónað tveimur herrum. Þessir menn hafi að lokum átt um tvo kosti að velja og hvorugan góðan: Að svíkja þjóð sína eða svíkja konung.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (bókun 35)

Framangreind atriði eru nefnd hér því líkja má nýju frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 við nútímaútgáfu af trúnaðareiðum fyrri tíma. Verði frumvarpið að lögum er í raun verið að gera lýðveldið Ísland handgengið ESB með því að setja Íslendinga undir ok EES-réttar og festa okkur í viðjum erlends valds. Brýnt er að þingmenn og aðrir skilji þungann og alvöruna sem að baki býr. Með samþykkt frumvarpsins væri Alþingi gengisfellt til frambúðar og íslenskt lýðræði þar með líka.

EES-rétturinn er enn vaxandi að umfangi, teygir sig stöðugt lengra og regluverkið verður sífellt þyngra í vöfum. Þetta umhverfi hentar illa íslenskum fyrirtækjum, sem öll eru lítil/meðalstór á evrópskan mælikvarða. Frumvarpið miðar að því marki að samstilla réttinn (þ. Gleichschaltung) á öllu EES-svæðinu. Ómögulegt er þó að segja hvert þetta kann að leiða því ESB/EES-rétturinn hefur stöðugt verið að þenjast út og verið túlkaður á „dýnamískan“ (lesist: pólitískan) hátt af hálfu dómstóls ESB. Þrátt fyrir þessi óljósu ytri mörk stöndum við hér frammi fyrir því að réttur ESB/EES skuli hafa stöðu æðstu laga, m.ö.o. reglna sem ekki má breyta og ætlað er að þjóna sem rammi utan um alla aðra lagasetningu með því að afmarka hvað telst leyfilegt og hvað ekki.

Ef Alþingi samþykkir frumvarpið og þar með forgang EES-réttar umfram íslensk lög, má öllum vera ljóst að ESB mun eftir það alls ekki sætta sig við að Alþingi setji sérreglur sem raska þeirri réttareiningu og þeirri rétthæð lagareglna sem forgangsreglan miðar að.

Með frumvarpinu er stefnt að því að Alþingi geri Íslendinga ofurselda forgangsrétti EES-reglna, þrátt fyrir að þær eigi uppruna sinn hjá stofnunum ESB og þrátt fyrir að ESB hafi allt tangarhald á túlkunarvaldi um þessar reglur. Flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins sem telja að ESA og EFTA- dómstóllinn muni geta veitt ESB viðnám í því samhengi sem hér um ræðir hljóta að hafa óraunsæja sýn á styrk hinnar veiku EFTA-stoðar í EES-samstarfinu. Annars gætu þau ekki með góðri samvisku stutt frumvarp sem miðar að því að veikja grundvallarstofnanir og burðarstoðir okkar eigin lýðveldis.

Varnaðarorð

Verði frumvarpið að lögum væri verið að taka skref sem gæti reynst afdrifaríkt. Íslenskum rétti yrði teflt í óvissu með því að leggja mótun hans í hendur manna sem við þekkjum ekki og svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum. Með frumvarpinu er ýtt undir réttaróvissu, vegið að réttaröryggi, grafið undan fyrirsjáanleika laga og réttmætum væntingum Íslendinga gagnvart síðar samþykktum lögum frá Alþingi.

Sem smáþjóð höfum við Íslendingar alltaf þurft að beita lögum í vörn gegn ágengni annarra þjóða. Títtnefnt frumvarp er til þess fallið að slá þetta eina vopn úr höndum okkar og afhenda ESB vald til að setja lögin, túlka þau og framkvæma. Út frá þessu blasir við að málið er hálögfræðilegt og þarfnast mjög vandlegrar lögfræðilegrar ígrundunar áður en það verður sett í pólitíska umræðu og atkvæðagreiðslu. Þetta mál má því ekki keyra blindandi í gegnum Alþingi án þess að þingheimur og almenningur allur hafi gert sér skýra grein fyrir hvað hér er í húfi.

„Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja“

Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi setur það embættismenn Íslendinga í þá stöðu sem hirðmenn 13. aldar voru í gagnvart konungi, þ.e. að geta ekki óhlýðnast fyrirskipunum konungs (ESB) þótt þeim verði „stundum þvert um geð að framkvæma þær“. [JJ, 332]. Í þessu felst að embættismenn okkar geta í raun orðið ógn við sjálfstæði þjóðarinnar með því að skapa ESB bæði tól og tækifæri til að skipta sér af málefnum Íslendinga. Embættismenn, kostaðir af íslenskum skattgreiðendum, munu taka að sér að reka erindi ESB samkvæmt skipunum ESB og gæta hagsmuna ESB vandlega. Á þeim mun sannast að enginn getur þjónað tveimur herrum.

Ef Alþingi mun velja þann kost að vinna ESB þennan trúnaðareið gæti það orðið meginorsökin að endalokum lýðveldisins Íslands. Við munum búa við allt annars konar stjórnarfar en stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir. Við verðum eins og lén í konungsríki á miðöldum. Stjórnarstofnanir munu að vísu standa áfram en valdið verður fært úr landi í hendur manna sem Íslendingar hafa ekki kosið til áhrifa og bera engar taugar hins almenna Íslendings. Er þetta spennandi framtíðarsýn? Hér verða þingmenn okkar að svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum og eigin samvisku. Við kjósendur verðum að vekja þingmenn til vitundar um þá ábyrgð sem þau bera gagnvart þjóð sinni og framtíð lýðveldisins.

Sú þjóð sem löngum átti ‘ ekki‘ í sig brauð

en einatt bar þó reisn í fátækt sinni,

skal efnum búin orðin þvílíkt gauð

er öðrum bjóði sig að fótaskinni.

Sú þjóð sem horuð ærið afhroð galt

af ofurheitri trú á frelsið dýra,

hún býður lostug sama frelsi falt

með fitustokkinn belg og galtarsvíra.

 

Sú þjóð sem veit sér ekkert æðra mark

en aurasníkjur, sukk og fleðulæti,

mun hljóta notuð herra sinna spark

og heykjast lágt í verðgangsmanna sæti.

 

Sú þjóð sem dottar dáðlaus, viljasljó,

og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,

skal fyrr en varir hremmd í harða kló.

Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja!

(Jón Helgason, 1951)

 

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 20.4.2023.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband