Allir þrælsáttir, eða hvað?

Sagan endurtekur sig kannski ekki, en mannlegt eðli gerir það að verkum að menn (og þjóðir) rata endurtekið í svipaðar aðstæður. Þá birtast atvik sem ríma við atburði fyrri tíma. 

Í Morgunblaðsgrein í gær benti ég á samsvörun milli atvika nú og á 13. öld, þar sem erlent vald knýr á um það að Íslendingar vinni trúnaðareiða og gerist valdinu handgengnir. Afleiðingin nú, eins og þá, gæti orðið sú að Ísland missi sjálfstæði sitt um leið og þjóðin missir frá sér sjálfsákvörðunarréttinn.

Eftir birtingu greinar minnar í gær hringdi í mig glöggur félagi minn, sem minnti á eitt höfuðmarkmið Gamla sáttmála 1262 var að tryggja Íslendingum aðgang að erlendum mörkuðum og siglingar hingað með erlendar vörur. Í samhengi við nútímann er vert að minna á að aðeins 9 árum síðar, 1271, fengu Íslendingar senda hingað heila lögbók, Járnsíðu, sem vegna útbreiddrar andstöðu á Alþingi var síðar endursamin og ný lögbók, Jónsbók, lögtekin hér 1281. 

Hin ótrausta heimild Wikipedia segir ,,ekki ljóst" hvers vegna Íslendingar stóðu gegn lögtöku Járnsíðu. Þetta er þó öllum ljóst sem gripsvit hafa á réttarsögu og hinum forna germanska rétti: Járnsíða var ekki sprottin upp úr jarðvegi daglegs lífs, menningar og viðskipta á Íslandi. Járnsíða var afsprengi allt annarrar lagahefðar, þar sem lögin eru sett fram sem fyrirskipanir, m.ö.o. sem valdboð að ofan. Þess vegna vildu Íslendingar ekkert með Járnsíðu hafa. 

Nú sjáum við þessi stef endurtaka sig í nútímanum: Til að tryggja aðgengi að erlendum (evrópskum) markaði ætla menn sem gerst hafa handgengnir erlendu valdi að knýja hér í gegn grundvallarbreytingu á íslenskum rétti sem mun þýða að höggvið verður á lýðræðislega rót réttarins og lögunum umbreytt í valdboð (fyrirskipanir) að ofan. Hlutverk Íslendinga á 21. öld skal aftur verða það sem þessi þjóð mátti lengst af búa við frá 1262: Að hlýða. Eru allir bara þrælsáttir við það? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband