Lýðræðið deyr ef við gerum ekkert

Þegar svo er komið að skólastarf snýst um innrætingu frekar en menntun í klassískum skilningi; þegar matvælaframleiðsla gerir næringu að aukaatriði; þegar list snýst ekki um fegurð eða innsæi; þegar lyf eru framleidd sem veikja heilsu fólks; þegar fólk er beitt ofbeldi í nafni friðar; þegar menn halda ræður án þess að miðla upplýsingum; þegar mikilvægara er að sýnast en að vera, þá er kannski ekkert skrýtið að stjórnmál séu hætt að snúast um að halda tryggð við stefnumál. 

Upplausnarástand

Samfélagið hefur verið kvistað niður í flokka, deildir, hópa og hagsmunasamtök sem bítast um völdin. Í slíkri (ó)menningu er þess krafist að félagsmenn sýni flokki sínum hollustu og leiðtogunum hlýðni. Í slíku andrúmslofti, þar sem enginn þorir lengur að hugsa sjálfstætt og tjá sig frjálst, þar er gagnrýnin hugsun leyst af hólmi með blindri fylgispekt við foringja hópsins og þá línu sem lögð er hverju sinni.

Við erum mögulega komin á háskalegan stað, þar sem samfélag okkar er að leysast upp í ,,klíkustríð", þar sem andstæðir hópar bítast innbyrðis um völdin. Í slíkum átökum er kannski ekki að undra þótt hugsjónir hverfi og týnist í rykmekki. Þegar kennileitin eru horfin fer hver og einn flokkur að líkjast alræðisríki í smækkaðri mynd. Í orkupakkamálinu og í umræðu um frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 blasir við að stýrið hefur verið fest og stefnunni verður ekki haggað, hvað sem líður öllum efasemdum þeirra sem standa utan við flokkforystuna. Með þessu er ég ekki að segja að lýðræðið sé dauðadæmt, heldur benda á að við slík vinnubrögð verður ekki unað. Hinn almenni flokksmaður verður að standa upp, andmæla og þora að láta í sér heyra. Kalla verður eftir því að flokksforystan komi hreint fram og hætti að kasta ryki í augu fólks með hálfsannleika, útúrsnúningum og blekkingamoldviðri. Ég veit ekki með ykkur hin, en ég ætla ekki að láta ganga yfir mig með þessum hætti eða hrekja mig úr Sjálfstæðisflokknum. 

Um frumvarpið

Það er rangt að frumvarpið feli aðeins í sér skýringu. Verði frumvarpið samþykkt felur það í sér breytingu á lögum sem getur haft áhrif á réttarstöðu einstaklinga og lögaðila. Hér er verið að gefa út óútfyllta ávísun sem í síðari dómaframkvæmd getur verið notuð til að marka stefnu í ófyrirsjáanlega og skaðlega átt. Þetta mætti gera með framúrstefnulegri túlkun á EES réttinum og því sem fella mætti undir ,,skuldbindingar" Íslands samkvæmt EES samningnum.  

Það er einnig rangt að frumvarpið bindi ekki hendur Alþingis á nokkurn hátt. Í framkvæmd mun Alþingi aldrei setja lög og viðurkenna um leið að þau gangi gegn EES. Í því fælist viðurkenning á samningsbroti og myndi kalla skaðabótaskyldu yfir íslenska ríkið. 

Lokaorð

Til að unnt sé að eiga hér vitræna umræðu þarf hún að vera jarðtengd og það á að hvetja fólk til málefnalegrar þátttöku, ekki berja það niður og fæla það frá með vitsmunalegri bælingu, persónuníði, hótunum um pólitíska útskúfun, einelti o.s.frv. 

Frjálslynd stjórnmál snúast um skynsamlega stefnumörkun ekki kreddur. Um frjálst val, en ekki þvingun. Um frjálsa skoðanamyndun, en ekki boðun. Stjórnmálaflokkar eru frjáls félagasamtök, ekki ríkisstofnanir. Ef forystufólk íslenskra stjórnmálaflokka ætla að brjóta gegn öllu þessu gera þau flokkum sínum mikið ógagn og hrekja kjósendur í fang annarra.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband