Valdið afhent án umræðu?

Lögfræði hefur alla tíð verið snar þáttur í íslenskri menningu. Öldum saman var lögbókin Jónsbók afrituð og lesin af alþýðu manna. Lagaþekking var hluti af almennri þekkingu. Á þeim grunni stóðu Íslendingar í margar aldir gegn einhliða lagasetingarvaldi konungs. Í Jónsbók (1281) var grundvallarhugsunin sú að konungur skyldi gæta hinna fornu laga og einungis breyta þeim að undangengnu samráði við Íslendinga. 

Á einveldistímanum stigu konungar fram sem ,,lögin holdi klædd" (lex animata). Frammi fyrir því ægivaldi þurftu menn að takast á um það hvaða skorður ætti að setja löggjafanum. Til að mæta þessum vanda var í fyllingu tímans ákveðið að setja stjórnarskrár sem nokkurs konar æðri lög, sem jafnvel konungur mætti ekki ganga gegn. 

Bókun 35

Líta má á frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 sem birtingarmynd gamalkunnugs stefs, þar sem yfirvöld seilast lengra samhliða veikara viðnámi almennings: Yfirþyrmandi fjöldi lagareglna sem streymir frá Brussel er á góðri leið með að lama réttarvitund almennings. Fjölgun lagareglna veldur því að rétturinn breytist í völundarhús þar sem stórar ákvarðanir eru látnar velta á óljósum stefnuyfirlýsingum um fjórfrelsi ESB sem í framkvæmd er gert að yfirstjórnarskrá, sem yfirtrompar jafnvel stjórnarskrár þjóðríkjanna. Þegar almenningur, þingmenn og ráðherrar standa svo óörugg, týnd og ráðþrota í regluverks-þokunni getur verið freistandi að taka í stóra og sterka hönd æðsta veraldlega valdhafa sem finna má (lex animata) sem býðst til að vísa okkur veginn út úr óvissunni og inn í ,,fyrirmyndarríkið", sem þó er hvergi til.  

Höfum við gengið til góðs?

Erum við svo buguð, svo ráðþrota, svo hirðulaus um okkar eigin lög og stjórnarskrá, okkar eigið frelsi og framtíð, að við viljum nú afhenda endanlegt ákvörðunarvald um lögin í hendur fjarlægs, miðstýrðs og ólýðræðislegs valds í þeirri von að þurfa ekki að taka ábyrgð á sjálfum okkur? Ef Íslendingar 21. aldar ætla að afsala sér ábyrgð á eigin örlögum, andmælalaust og umræðulaust, eru þeir verr að sér en Íslendingar fyrri alda. Það væri sorgleg umsögn um allt okkar starf. Og það er hörmulegt, átakanlegt og raunalegt ef þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ætlar að leiða þessa þýlyndisför út fyrir mörkin, sbr. leiðara Morgunblaðsins í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband