6.5.2023 | 10:12
Nýir tímar, en sömu stef
Viðvörunarorð mín um frumvarp utanríkisráðherra vegna bókunar 35 hafa vakið sterk viðbrögð. Hörðustu stuðningsmenn þessa frumvarps virðast koma úr röðum Viðreisnar og Samfylkingar. Þær gagnrýnisraddir eru hjáróma í samanburði við þann stuðning sem sjónarmið mín virðast njóta meðal fólks úr öðrum flokkum, ekki síst almennra Sjálfstæðismanna. Sérstaklega vil ég þakka Bjarna Jónssyni fyrir hans góðu skrif um þetta mál. Áhugamönnum um lýðræðislegt stjórnarfar má auk þess benda á umsögn Stefáns Más Stefánssonar og Arnaldar Hjartarsonar. Grein Hannesar Jónssonar, fv. sendiherra, frá 1992 (sjá mynd) er vel þess virði að lesa. Einnig má nefna hér ágæt skrif Kára um efnið, sem og framlag Jóns Steinars Gunnlaugssonar, auk nokkurra ágætra leiðara Morgunblaðsins um þetta mál.
Ágætur vinur minn, sem gegnt hefur margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, vill meina að núverandi forystumenn þessa ágæta flokks séu að hrekjast frá þeim hugmyndafræðilega grunni sem lagður var af Birgi Kjaran, Jóhanni Hafstein og Bjarna Benediktssyni eldri. Við leit á Alþingisvefnum hnaut ég um þessa ræðu Ellerts B. Schram frá árinu 1971, þar sem segja má að kjarni Sjálfstæðisstefnunnar sé margvíslega kristallaður í andmælum gegn því að valdið sé flutt frá einstaklingunum til miðstýrðs og fjarlægs valds:
,,Vinstri menn telja sig berjast fyrir hugsjónum nýrrar kynslóðar, segjast hafa komið til valda í takt við strauminn, séu boðberar þeirra kenninga, sem afneita lífsþægindunum, peningavaldinu, firringunni, ofurvaldi kerfisins. Svo veglegt er þeirra hlutverk. Það er rétt, að ólgu og umbrota hefur gætt meðal ungs fólks á seinni árum, þ.e.a.s. ungs fólks á Vesturlöndum, þar sem á annað borð eru leyfðar þjóðfélagslegar umræður og lýðræðisleg gagnrýni á þjóðfélagsskipan hverju sinni. Ungt fólk og reyndar þeir eldri líka hafa vaxandi áhyggjur af firringunni, mætti vélmenningarinnar og tölvunnar, þverrandi ítökum einstaklinganna, manneskjunnar sjálfrar. Hinn mannlegi þáttur tilverunnar á sífellt erfiðara uppdráttar andspænis fjöldaframleiðslu, skrifstofubákni, valdahyggju, tæknivæðingu, afskræmingu náttúru og mannlegra eiginleika. Af þessum áhyggjum eru sprottnar umræður um mengun, jafnrétti kynja, uppreisn æskunnar, sjálfstæðisbarátta smáþjóða, jafnvel sjálf hippamenningin. Fólk leitar að sjálfu sér, vísar lífsþægindagræðginni og hinum veraldlegu keppikeflum á bug, því stendur stuggur af þeirri þróun, sem gerir einstaklinginn að tölu á gataspjaldi eða númeri í einhverri áætlun.
Þetta eru hinar áleitnu spurningar nútíma þjóðfélagsins. Hvernig getum við gert tilveruna manneskjulegri? Hvernig á einstaklingurinn að forðast það að vera ofurseldur kerfinu? Þessum spurningum svarar nú vinstri stjórnin á Íslandi með því að boða nýja stefnu og leggja síðan fram frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins og tilkynna siðan, að þar sé á ferðinni fyrsta stefnumótandi mál hennar. Og hvað felur þetta frv. í sér? Enn eitt skrifstofubáknið, áætlunarbúskap pólitískra handbenda, sem eiga að segja fólkinu, einstaklingunum, hvað sé þeim fyrir beztu í þessu lífi, veita einum forgang umfram annan, meta borgarana út frá þjóðhagslegri þýðingu þeirra, dæma verðmætin í ljósi framleiðslu og framleiðni, hversu almáttugt sem það mat reynist svo í framkvæmdinni. Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum hinna útvöldu fulltrúa baráttunnar gegn firringunni og misréttinu við þessu frv. firringarinnar og misréttisins.
Ekkert er augljósara en sú staðreynd, að það verði hlutskipti vinstri stjórnarinnar að leiða þjóðina og hina nýju kynslóð lengra inn á braut alhæfingarinnar og tillitsleysisins, herða ferðina í þeim darraðardansi, sem allir hugsandi og frjálslyndir menn gera nú tillögur um, að forðast beri. Nú á ekki lengur. að gefa upplýsingar, heldur að gefa fyrirmæli. Nú á ekki að veita ráð heldur áætla og ákveða, nú á að auka valdið ofan frá, treysta á forsjá stóra bróður. Nú verður mælistikan gildismat hagfræðiformúlunnar. Á sama tíma sem þörf er á að nýta hugvit og frumkvæði, hæfileika og framtak hvers einasta Íslendings í harðnandi samkeppni smárrar þjóðar á öllum sviðum, þá á nú að setja traustið á alvizku áætlana og útreikninga. Á sama tíma, sem kvartað er undan flóknu og seinvirku embættismannakerfi, þá á að stofnsetja enn eitt ríkisbáknið samkv. gamalkunnri formúlu Parkinsonslögmálsins. Á sama tíma og talað er með fjálgleik um dreifingu valdsins og aukin áhrif einstakra byggðarlaga, þá er valdinu safnað enn þéttar saman undir allsráðandi miðstjórnarvaldi, sem landshlutar verða að sækja allt sitt undir. Á sama tíma og ungt fólk berst einarðri baráttu gegn flokksræði og flokkslegri fjarstýringu, þá er atvinnulífinu talið bezt borgíð í höndum útvalinna kommissara stjórnmálaflokkanna." [Leturbr. AÞJ]
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.