Lifum við í frjálsum heimi?

Í sunnudagsútgáfu Moggans (bls. 10) er viðtal við albanska fræðimanninn Leu Ypi þar sem hún m.a. lýsir því hvernig frelsi hennar (og barna hennar) hvarf þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Umfjöllunarefni Leu er frelsið sem ,,skyndilega verður aðkallandi hlutur og áþreifanlegur" þegar maður ,,situr inni í skap að skrifa um frelsið sem maður hefur alltef tekið sem gefnu" en hefur ,,skyndilega verið tekið úr sambandi". Lea lýsir því hvernig kúgunarstjórn Albaníu hélt stöðugum áróðri að þegnum sínum í barnæsku Leu og hvernig fólk sat fast í greipum hugmyndafræði sem það kaus að sætta sig við og tók þátt í að viðhalda áróðursmynd stjórnvalda.  

Á bls. 8 í sama blaði er rætt við James Davies, sem er sálgreinir, mannfræðingur og rithöfundur. Þar bendir Davies á að Íslendingar eigi ,,met í notkun geðlyfja á heimsvísu" og bendir á að ,,margir græði mikið á því að viðhalda lyfjanotkuninni; stóru lyfjarisarnir og ríkið, en því meiri notkun, því meira fé kemur í ríkiskassann í formi skatta frá lyfjafyrirtækjum". Fólk sé ,,gegnsýrt af þeirri sýn lyfjafyrirtækjanna að við þurfum lyf til að leysa vandamál okkar". 

Hversu lítið þarf til að réttlæta almennar frelsisskerðingar?

Lea, börn hennar og við hin höfum fullt tilefni til að hugsa og skrifa um frelsið í ljósi þess hvernig stjórnvöld á Vesturlöndum innleiddu alvarlegar frelsisskerðingar á síðustu árum. Ekki þurfti annað til en veiru sem hafði um 0,3% dánarlíkur (IFR) og var raunar tölfræðilega hættulaus ungu fólki og hraustu. Er frelsið þá lítið annað en sjónhverfing? Má af svo litlu tilefni taka stjórnarskrárákvæði úr sambandi? Allur meginþorri almennings sat svo fastur í viðjum áróðurs og hugmyndafræði stjórnvalda að þetta gerðist nánast andmælalaust, lögfræðingar þögðu, ríkisstofnanir fylgdu hinni opinberu línu og fjölmiðlar urðu kjölturakkar valdsins í stað þess að vera varðhundar almennings gagnvart yfirvöldum.

Frjáls umræða lamin niður í nafni samstöðu?

Í ótta sínum samþykkti þorri almennings að láta sprauta sig með lyfjum, framleiddum af sömu lyfjarisum sem nefndir voru hér að framan. Samfélagið varð ,,gegnsýrt af þeirri sýn lyfjafyrirtækjanna" að við þyrfum lyf til að leysa vandann. Þótt síðar hafi komið í ljós að lyfin voru gagnslaus / gagnslítil og gátu haft í för með sér alvarlegar aukaverkanir, sérstaklega gagnvart ungum karlmönnum, var amast við þeim sem vildu hreyfa efasemdum eða setja fram varnaðarorð. Hafa má skilning á því að margsprautað fólk vilji ekki heyra gagnrýni á framleiðendur lyfjanna. Í samhengi við ópíóðafaraldurinn sem nú er mikið til umræðu má þó minna á að þessi ávanabindandi verkjalyf eru framleidd af sömu ,,velgjörðarmönnum" mannkyns og framleiddu bóluefnin sem haldið var svo stíft að almenningi að sumir voru farnir að mæla með því að samfélaginu yrði skipt upp í tvo misréttháa hópa og almenn mannréttindi þar með afnumin gagnvart þeim sem höfnuðu því að veita lyfjunum viðtöku í líkama sinn.

ES. Grein Sigmundar Ernis Rúnarssonar ,,Herkvíin" sem geymdi hvatningu til mismununar og mannréttindabrota, virðist nú hafa verið fjarlægð af vef Fréttablaðsins. Áminningin um þann hrylling er varðveitt annars staðar.

P.P.S. Hér er grein SER aðgengileg sem skuggaleg áminning um andrúmsloft ómenningar þar sem ótti er farinn að næra ofstæki.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband