9.5.2023 | 08:44
Vilt þú að rétthugsun yfirtrompi gagnrýna hugsun?
Í umsögn til Alþingis vegna frumvarps um bókun 35 skrifaði ég meðfylgjandi málsgreinar í gær:
Í raun stöndum við hér frammi fyrir nýrri tegund stjórnkerfis, þar sem lýðræðisleg umræða er leyst af hólmi með tilbúinni hugmyndafræði (pólitískri rétthugsun). Í slíku kerfi er gagnrýnin, skapandi og rökræn hugsun í auknum mæli jaðarsett, ritskoðuð og þögguð niður.
Þetta nýja stjórnarfar, sem nú teygir anga sína æ lengra inn í stjórnkerfi íslenska lýðveldisins, birtist í fyrrnefndri grundvallarbreytingu á því hvernig lögin verða til. Áður voru lögin sett af þjóðkjörnum fulltrúum almennings, sem svöruðu til ábyrgðar gagnvart borgurunum. Nú verða lög, á sífellt fleiri sviðum, til með allt öðrum aðferðum. Í raun er þetta umbylting á lagasetningu, þar sem lögin verða til hjá embættisveldinu, oft að undangengnum alls kyns lobbýisma, þar sem reglurnar eru samdar á bak við luktar dyr, birtar án umræðu og leiddar í lög með stimpli / einföldu samþykki kjörinna þingmanna.
Þegar þetta var skrifað í gærdag datt mér ekki í hug að þá um kvöldið fengi ég fréttir af áþreifanlegu dæmi: Þingsályktunartillaga forsætisráðherra um ,,aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu" er á hraðri leið í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Alls bárust 20 umsagnir, þar á meðal frá Málfrelsi, en nú virðist sem ekki eigi að bjóða öllum á fund nefndarinnar, heldur aðeins þeim sem voru hlynntir tillögunni!
Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að senda inn umsögn til að andmæla þessum vinnubrögðum:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.