14.5.2023 | 05:56
Vítahringur sem þarf að rjúfa
Ef fólk leggur á sig að lesa umsögn mína til Alþingis um bókun 35 (10.5.) og umfjöllun mína um frumvarp heilbrigðisráðherra til nýrra sóttvarnalaga (12.5.), auk tilvísana til Roberts F. Kennedy jr. (11.5.), þá má greina þarna nokkra sameiginlega þræði:
- Vald er að færast frá almenningi / kjósendum og frá lýðræðislegum stofnunum til yfirþjóðlegra stofnana.
- Þessar yfirþjóðlegu stofnanir eru ýmist að verulegu leyti fjármagnaðar af einkaaðilum (sbr. t.d. WHO) eða undir verulegum þrýstingi frá þúsundum lobbýista sem starfa í þágu slíkra einkaaðila.
- Í stað valddreifingar er að eiga sér stað samþjöppun valds.
- Þetta nýja vald lýtur ekki lýðræðislegu aðhaldi og telur sig ekki bundið af stjórnarskrárákvæðum.
- Samhliða þessari valdatilfærslu má sjá merki um samþjöppun auðs á færri hendur.
- Hvort sem það má heita orsök eða afleiðing framangreindrar þróunar sjást greinileg merki um háskalegan samruna stórfyrirtækja og (yfirþjóðlegs) ríkisvalds, en slíkur samruni hefur í sögulegu tilliti haldist í hendur við stjórnarfar alræðis og kúgunar.
- Allt framangreint skapar umhverfi og aðstæður þar sem spilling grefur um sig í öllum innviðum. Afleiðingin er sú að kerfin hætta að þjóna almenningi og snúast raunar gegn gegn almenningi, sem í ótta og sundrungu vill láta stjórna sér með fyrirskipunum.
Hvernig má rjúfa þennan vítahring? Gerum við það ekki best með því að taka ábyrgð á okkur sjálfum, lýðræði okkar og lýðveldi okkar? Ég skora á þig, kæri lesandi, að gerast virkur þátttakandi í lýðræðislegu samfélagi. Það gerir þú t.d. með því að taka þátt í félagsstarfi, mæta á fundi og láta rödd þína heyrast, óttalaust.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.