Pólitík án prinsippa?

Fyrirsögnin er sótt til lista yfir ,,sjö samfélagssyndir" sem Gandhi birti árið 1925. Gandhi mun hafa sagt að prinsipplaus stjórnmál leiddu til glundroða sem að lokum framkallar harðstjórn. 

Segja má að ég hafi lagt embættisferil minn á hilluna í góðri trú um að kraftar mínir gætu nýst betur á vettvangi stjórnmála. Þótt aðrir flokkar hafi boðið mér góð sæti á framboðslistum kaus ég að halda tryggð við Sjálfstæðisflokkinn og hugsjónir hans. Það gerði ég af prinsippástæðum. 

Í þessu ljósi er nöturlegt að lesa gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Sjálfstæðisflokkinn Morgunblaðsgrein hans í dag. Lesturinn er nöturlegur því gagnrýnin er réttmæt. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur orðið viðskila við prinsipp flokksins, a.m.k. er ekki að sjá að þetta góða fólk framfylgi í verki þeim stefnumálum sem þau voru kosin til að vinna að og verja. 

Ég læt nokkrar tilvitnanir úr grein SDG fylgja mér, svo lesendur geti sjálfir lagt mat á það hvort þingflokkur XD iðki nú ,,pólitík án prinsippa":

„Þó verð ég að benda á að reglu­gerðir Evr­ópu­sam­bands­ins sem miða að auknu miðstýr­ing­ar­valdi streyma nú óhindrað í gegn­um þingið, oft born­ar fram af ráðherr­um Sjálf­stæðis­flokks­ins og samþykkt­ar af þing­mönn­um sem hafa ekki hug­mynd um hvaða áhrif þær muni hafa. Það kem­ur í ljós síðar þegar fyr­ir­tæki og al­menn­ing­ur finna áhrif hins illskilj­an­lega og dýra reglu­gerðar­valds á eig­in skinni.

Næst á lista er hin al­ræmda bók­un 35 sem seg­ir að til framtíðar skuli reglu­verk sem samið er af skriffinn­um í Brus­sel og berst hingað á færi­band­inu telj­ast æðra en lög sem sam­in eru af full­trú­um ís­lenskra kjós­enda.“ 

„Báknið hef­ur aldrei verið stærra. Það stækk­ar með hverj­um mánuðinum og hverju frum­varpi þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar. Op­in­ber­ir starfs­menn eru nú orðnir um þriðjung­ur starf­andi fólks á Íslandi.“ 

„Ég hef áður skrifað grein um áform for­sæt­is­ráðherra og rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að setja sam­fé­lagið allt á inn­ræt­ing­ar­nám­skeið um hvernig fólk eigi að hugsa og tjá sig. Ég læt vera að rekja það allt aft­ur en skemmst er frá því að segja að þetta fel­ur í sér lang­stærsta inn­grip sem stjórn­völd hér á landi hafa ráðist í til að stýra hug­ar­fari og tján­ingu lands­manna.“ 

Ef flokk­ur­inn ætl­ar að halda áfram að van­rækja grunn­stefnu sína, ef hann ætl­ar að meta öll póli­tísk mál eft­ir því hversu vel umbúðirn­ar falla að tísku sam­tím­ans, jafn­vel að því marki að fall­ast á að keyra í gegn frum­varp um að nýja vinstrið fái vald til að leggja lín­urn­ar um þróun sam­fé­lags­ins og að end­ur­mennta þjóðina í rétt­hugs­un ef sú er raun­in vil ég alla vega geta sagt: „ég reyndi að vara þá við.“ [Leturbr. AÞJ]

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er að höggva í sínar eigin rætur. Tré í umsjá slíkra manna mun falla. Slíkt fall væri verulegt áhyggjuefni fyrir alla þá sem vilja að jafnvægi ríki í íslenskum stjórnmálum, því öll ríki þurfa kjölfestuflokka bæði til vinstri og hægri. Ef tómarúm verður á öðrum hvorum vængnum skapar það hættulega slagsíðu sem skaðar allt þjóðfélagið að lokum.
 
Geta almennir Sjálfstæðismenn (og almennir kjósendur) horft þegjandi og athugasemdalaust á það sem Sigmundur Davíð lýsir í grein sinni í dag? Ætla menn að móðgast vegna gagnrýni hans? Eða væri nær að gera eitthvað til að verja tréð frá falli, sem nú þegar hefur sigið óþægilega til vinstri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband