20.5.2023 | 08:33
Háðsádeila sem mótefni
Varúð. Eftirfarandi línur eru ekki fyrir þá sem bera skilyrðislaust traust til ríkisvalds og alls ekki fyrir þá sem treysta fyrirtækjum betur eftir því sem þau eru stærri. Þeir sem skipa sér í aðra hvora fylkinguna gætu fundið rykfallnar tilfinningar bærast innra með sér ef lengra er haldið með lesturinn, svo sem óþægilegan efa. Sérstaklega vil ég hlífa þeim sem telja að lausn erfiðustu samfélagsverkefna sé fólgin í nánu samstarfi og jafnvel samruna ríkis og stórfyrirtækja. Síðast en ekki síst vil ég forða þeim frá sársaukafullu endurmati sem kosið hafa þægilegt hugsunarleysi og blint traust fram yfir gagnrýna og sjálfstæða hugsun.
Þeir sem enn eru að lesa og telja þ.a.l. að framangreindar lýsingar eigi ekki við um þá, gætu glaðst yfir þessari perlu listforms sem kennt er við háðsádeilu. Þeir sem gætu haft húmor fyrir þessu eru m.a. þeir sem telja valdboðsstjórnarfar síðustu ára hafa rýrt traust á ríkinu; þeir sem telja það skyldu sína að andmæla ef ríkið gengur of langt í breiðvirkum og miðstýrðum ,,lausnum"; þeir sem vilja verja lýðræðislega stjórnarhætti gegn ógn ofríkis.
Voru allar aðgerðir stjórnvalda í kófinu réttlætanlegar? Var réttlætanlegt að stimpla allar efasemdir sem ,,upplýsingaóreiðu", ,,samsæriskenningar" eða ,,falsfréttir"? Var rétt á þeim grunni að opinberar stofnanir (Fjölmiðlanefnd) beittu sér með sérstöku átaki gegn frjálsri skoðanamyndun? Er hlutverk borgara í lýðræðissamfélagi í því fólgið að trúa öllu í blindni sem kemur frá handhöfum ríkisvalds, þar á meðal um virkni bóluefna? Er það skylda okkar að lamast af ótta þegar stjórnvöld mála skrattann á vegginn? Er þá ekkert svigrúm til sjálfstæðs mats, ekkert svigrúm til benda á litbrigði mannlífsins til að andmæla því að eitt skuli yfir alla ganga? Var í því ljósi t.d. réttlætanlegt að sprauta börn með mRNA lyfjum vegna veiru sem börnum stafaði engin tölfræðileg hætta af? Má spyrja slíkra spurninga? Ef svar þitt er jákvætt, þá mæli ég með að þú gefir þér 5 mínútur til að horfa á þetta. Ef svar þitt er nei, þá mæli ég fram varnaðarorð enn og aftur og bið þig um að undirbúa það sem áður kann að hafa verið óhugsandi, þ.e. að þú munir áður en langt um líður vilja endurmeta fyrri afstöðu þína til þeirrar umpólunar á stjórnarfari sem síðustu misseri leiddu yfir okkur.
Á endanum er það hvers og eins að svara því hvort hann vilji rata út úr þokunni, horfa fram hjá villuljósum og brjóta af sér hlekki hugsanafjötra. Háðsádeilan er kannski það listform sem valdboðssinnar óttast mest. Hér er flugbeitt dæmi um slíka list.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.