24.5.2023 | 08:39
Grunngildi Sjálfstæðisflokksins
Við stofnun Sjálfstæðisflokksins árið 1929 var mörkuð grundvallarstefna. Fyrstu tvö atriði hennar voru þessi:
- Að vinna að því að undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og 25 ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.
- Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Frá upphafi hefur það verið talin helgasta skylda flokksins að standa að standa á fyllsta rétti þjóðarinnar í þessum málum. Þetta hafa menn gert meðvitaðir um að sjálfstæðisbaráttan heldur áfram og er ævarandi. Í þessum tilgangi hafa sjálfstæðismenn barist gegn miðstjórnarvaldi á þeirri forsendu að slíkt vald leiði til alræðis. Þetta er byggt á reynslu en ekki spádómum, því sagan sýnir að valdinu verður að dreifa til að unnt sé að viðhalda réttarríki. Þetta verður best gert með virku lýðræði, sem byggist á frjálsri og virkri þátttöku almennings. Í slíku kerfi eru ráðamenn kosnir til valda í frjálsum kosningum og svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum.
Getur verið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins árið 2023 sé svo heillum horfinn að hann sé (með stuðningi við frumvarp um bókun 35):
- Horfinn frá því að standa á fyllsta rétti þjóðarinnar?
- Haldi að sjálfstæðisbaráttunni sé lokið?
- Vilji með lögum innleiða hér yfirþjóðlegt miðstjórnarvald ESB?
- Hverfa frá valddreifingu með því að gengisfella Alþingi?
- Veikja réttarríkið með því að skerða hér réttaröryggi borgaranna, fyrirsjáanleika laga og réttmætar væntingar til íslenskra laga?
- Veikja lýðræðið með því að færa löggjafarvald úr landi?
- Leggja ríkisvald í hendur fólks sem svarar ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart Íslendingum og hefur ekkert lýðræðislegt umboð til ákvarðanatöku?
Almennir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa ekki veitt þingmönnum umboð til að snúast með þessum hætti gegn stefnu flokksins.
Hús þarf að byggja á traustum grunni, tré stendur fast á sinni rót, en flokkur sem slítur sig frá uppruna sínum má búast við að fjúka í næsta stormi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.