Réttlætir lítil hætta víðtækar mannréttindaskerðingar?

Réttarríkishugtakið vísar til þess að ríkið sé bundið af reglum. Hlutverk dómstóla í réttarríki er að hafa eftirlit með því að ríkið lúti þeim reglum sem því eru settar í stjórnarskrám og almennum lögum. Þetta er vörn borgaranna gegn því að handhafar ríkisvalds beiti valdi af geðþótta / á ófyrirsjáanlegan / óútreiknanlegan hátt. Í réttarríki ná lögin til allra, allir eru jafnir fyrir lögunum. Fyrir þessa hugsjón réttarríkisins hafa menn barist í gegnum aldirnar og fórnað bæði frelsi og lífi. Á þessum grunni byggja ákvæði mannréttindasáttmála og stjórnarskráa um frelsi og réttindi einstaklinganna. Í vestrænum ríkjum sem kenna sig við frjálslyndi og lýðræði hefur verið litið svo á að allt framangreint marki ramma utan um stjórnmálin. 

Stjórnarskráin var aftengd í kófinu

Kórónuveiran (SARS-CoV-2) var kynnt til sögunnar vorið 2020 sem stórhættuleg heilsufarsvá, sem ógnaði öllum jafnt. Hættan var sögð slík að stjórnvöld tóku sér leyfi til að kippa stjórnarskrárákvæðum úr sambandi og svipta almenning borgaralegum réttindum. Ferðafrelsi, fundafrelsi, atvinnufrelsi og réttur barna til menntunar sættu margháttuðum og víðtækum skerðingum. Fyrirtækjum var lokað. Aðgengi að dómstólum skert. Stjórnsýslustofnunum var lokað. Allt var þetta gert á grundvelli þess að vernda þyrfti almenning fyrir aðsteðjandi ógn, því þetta væru „fordæmalausir tímar“ og verja þyrfti líf og heilsu almennings. Þetta eru rök sem sótt eru til neyðarréttar.

Spurningar sem fleiri hefðu mátt spyrja

Í þingræðu 22.12.21 spurði ég m.a.

„Er hættan sem við stöndum frammi fyrir orðin slík að það sé réttlætanlegt að ýta til hliðar hefðbundnum viðmiðum? Gengur þetta svo langt að það megi víkja til hliðar viðmiðum sem við höfum lagt til grundvallar, þ.e. um réttarríki, um borgaralegt frelsi eða um lýðræði? Eiga þessar undirstöður stjórnskipunarinnar að vera í uppnámi? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir svo alvarleg að það sé réttlætanlegt að raska hér öllu valdajafnvægi milli löggjafar, framkvæmdarvalds og dómsvalds? […] Er hættuástandið slíkt að það megi nota sóttvarnalög til almennra skerðinga á réttindum borgaranna? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir slík að það sé réttlætanlegt að stýra nú landinu með reglum sem eru settar án þinglegrar umræðu, án lýðræðislegrar temprunar?“

Var neyðarástand fyrir hendi? 

Stjórnarskráin geymir enga almenna heimild til að lýsa yfir neyðarástandi, en það var þó í reynd gert. Því verður að spyrja: Var neyðarástand fyrir hendi sem réttlætti að lögum þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til?

Svar: Samkvæmt ritrýndri grein sem fyrst var birt vorið 2020 og kom út í endanlegri útgáfu í júlí það ár, og síðan hefur verið birt í fréttabréfi WHO (sjá hér: 10.2471/BLT.20.265892) og byggð er á stranglega rannsökuðu alþjóðlegu mótefnaalgengi (e. international seroprevalence) er miðgildis dánartíðni (e. median IFR) fólks á aldrinum 0-59 ára 0,035%, en af öllum íbúum jarðar falla 86% í þennan aldurshóp. Þetta þýðir að 6,8 milljarðar manna (af u.þ.b. 8 milljörðum) höfðu 99,965% líkur á að lifa af kórónaveirusmit.[1] Dánarlíkur fólks undir 70 ára aldri (median IFR) 0,04%. Rétt er að undirstrika að þetta er yfirlitsrannsókn (meta-analýsa) sem byggir á fjölda annarra greina og dregur niðurstöður þeirra saman. Tekið er fram að þessar tölur byggja á rannsóknum sem gerðar voru áður en byrjað var að sprauta með svonefndum covid-bóluefnum. Einnig er ástæða til að geta þess að ofangreindar tölur kunna að ýkja hættuna þar sem þær byggjast á tölfræði sem nær til heilbrigðra jafnt sem fársjúkra einstaklinga, en viðurkennt er t.d. að offitusjúklingar voru í miklu meiri hættu en einstaklingar í eðlilegum holdum. Ennfremur ber að árétta að ofangreint hættumat varð mun lægra eftir að Omicron afbrigðið kom fram á sjónarsviðið, enda var Omicron vægara afbrigði veirunnar.

Lokaorð 

 Ég lýk þessu með tilvísun til fyrrgreindrar ræðu:

„Virðulegur forseti. Ég vil, núna þegar ég dreg þetta saman, nota tækifærið til að minna áheyrendur á það að réttarríkið, bara svo að það komi fram hér í þessum sal, felur í sér að ríkisvaldið er bundið af reglum og á að sæta aðhaldi í samsvarandi mæli. Þessi hugsjón um réttarríkið felur í sér að borgararnir eru varðir gagnvart ólögmætri valdbeitingu ríkisins. Þetta er hugsjón sem hefur lifað með mannkyni öldum saman og við þekkjum að þetta var heilagt baráttumál t.d. á tímum einveldisins. Í þessu felst að ef skerða á borgaralegt frelsi þá verður það ekki gert nema samkvæmt ströngum reglum og að uppfylltum ströngum skilyrðum. [...] Við eigum ekki að láta það gerast að með vísan til neyðarástands sé Alþingi klippt út, lýðræði gengisfellt og einhvers konar tilskipunarstjórnarfar innleitt hér á landi“.

 

[1] 0-19 ára ungmenni voru með og 99,9997% lífslíkur og 0,0003% dánarlíkur; 20-29 ára voru með 99,997% lífslíkur og 0,003% dánarlíkur; 30-39 ára voru með 99.989% lífslíkur og 0.011% dánarlíkur;  40-49 ára voru með 99,965% lífslíkur og 0,035 dánarlíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband