Jarðvegur ógnarstjórnar

Ógnarstjórnir fyrri alda hafa sprottið upp úr jarðvegi þar sem einstaklingarnir voru kerfisbundið og miskunarlaust dregnir í dilka út frá því hvaða þjóðfélagshópi menn eru taldir tilheyra. Flokkunin getur byggst á útlitseinkennum, ,,hreinleika", skoðunum, trú, búsetu o.fl. Ógnarstjórnir 21. aldar munu byggja á sama grunni. Lykillinn er í því fólginn að sundra fólki, skipa þeim í ,,klíkur" og berja þannig niður það sem telja má kjarna mennskunnar, þ.e. frelsi sérhvers manns til hugsunar, tjáningar, lífsafkomu o.s.frv.

Með því að „klíkuvæða“ allt samfélagið, þ.e. með því að færa borgurunum þau skilaboð að þau tilheyri þessum eða hinum hagsmunahópnum og verði að samræma hugsanir sínar hagsmunum hópsins er jafnvægi og frið raskað.

Háskaleg þróun

Þróun í þessa átt er hættuleg því hún gerir einstaklinginn að óvirkum áhorfanda í hinu pólitíska og lýðræðislega ferli. Í stað rökræðu milli einstaklinga umbreytast stjórnmálin í baráttu mismunandi hagsmunahópa, þar sem einstaklingurinn er í algjöru aukahlutverki, ef nokkru. Klíkuvæðingin er andstæð lýðræðinu.

Klíkuvæðingin er drifin áfram af undirliggjandi andúð á lýðræðinu sem óskilvirku stjórnkerfi, þar sem ákvarðanataka sé langdregin, sem útheimti mikla fyrirhöfn. Klíkuvæðingin gefur mönnum kost á að höfða til lægstu hvata fólks, framkallar spillingu og elur á ófriði.

Staðan 

Nú er svo komið að í raun mætti segja að hagsmunahópar / klíkur hafi yfirtekið stjórnmálin í heild. Þessir hópar klæða málflutning sinn í búning hlutlausrar greiningar og nota fjármuni sína og aðgengi að ráðamönnum til þess að keyra hagsmunamál sín í gegnum þær stofnanir sem lögum samkvæmt er ætlað að vera „hliðverðir“ samfélagsins. Í framkvæmd birtist þetta sem algjört áhrifaleysi grundvallarstofnana / lýðræðislegra yfirvalda.

Í klíkusamfélaginu ber enginn ábyrgð. Þar hafa klíkurnar (hagsmunahóparnir) leyst borgarana af hólmi sem grunneining samfélagsins. Hlutverk einstaklinganna er aðeins að vinna í þágu hagsmunahópsins og framfylgja skipunum. Í slíku umhverfi þarf ekki að koma á óvart að einstaklingarnir fari að líta á sig sem fórnarlömb. 

Ef menn leggja ekki rækt við hlutverk sitt sem einstaklingar í lýðræðissamfélagi, ef þeir eru ekki minntir á ábyrgð sínar, skyldur og réttindi þá verða þeir óvirkir, afsala sér ábyrgð – og hætta að vera sjálfstæðir einstaklingar. Þess í stað verða þeir þá aðeins hluti af þessum eða hinum hópnum. Frumskylda þeirra er þá talin vera við hópinn, en ekki samfélagið sem slíkt. Einstaklingurinn er þá orðin algjör aukastærð í lýðræðislegu tilliti. Samtalið fer aðeins fram á milli hópa, iðulega í formi skítkasts. Þegar svo er komið verða menn að snúa til baka og rækta grunninn ef lýðræðið á ekki að leysast upp í sjónhverfingu.

Samantekt

Þessi klíkumyndun er stærsta ógnin við lýðræðið. Þess vegna er hún aldrei rædd af fyrirsvarsmönnum hagsmunahópanna. Til að flækja þessa stöðu horfum við upp á sambærilega þróun á alþjóðlega sviðinu þar sem stórfyrirtæki, þrýstihópar, alþjóðleg samtök, yfirþjóðlegar stofnanir keppa sín á milli og taka sér völd yfir þjóðríkinu. 

Ein afleiðingin af öllu þessu er sú innanlandsófriður verður sífellt herskárri, en á sama tíma minnka áhrif innlendra stjórnvalda og yfirþjóðlegt vald færist í aukanna.  

Við þessu þarf að bregðast með því að vekja fólk til meðvitundar um ábyrgð sína, kalla fólk til þess að hlusta eftir sinni innri rödd, sem er rödd skynseminnar og samviskunnar. Ég leyfi mér að birta þessar línur til að minna á að við berum ekki fyrst og fremst skyldur gagnvart klíkunni okkar, heldur gagnvart samfélaginu öllu.

Í málþingi í Reykholti nk. laugardag mun ég fjalla nánar um þetta og kalla eftir samtali. Ég hvet alla áhugamenn um vernd og viðhald lýðræðis til að mæta og taka þátt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband