Þakkir og brýning

Að loknu vel heppnuðu málþingi um sl. helgi í Reykholti hefur gefist tilefni til að íhuga margt sem þar kom fram. Um 50 manns lögðu á sig að ferðast um langan veg, en í lok dags var samhljómur um að ferðin hefði verið fyrirhafnarinnar virði. Sem dæmi um gæði erindanna sem flutt voru bendi ég á frábæra grein sem Þorsteinn Siglaugsson skrifar í Morgunblaðið í dag, ,,Sérfræðingarnir og fjötur ósjálfræðisins" en greinin er byggð á framsögu sem Þorsteinn flutti á málþinginu. 

Í grein sinni beinir Þorsteinn kastljósinu að ábyrgð sérfræðinga þegar kemur að þátttöku í lýðræðislegri umræðu og frjálsri skoðanamyndun. 

Ég hvet alla til að lesa grein Þorsteins, en vil um leið hvetja menn til að íhuga hvort hvert og eitt okkar taki nægilega ábyrgð eða hvort við fylgjum í blindni þeim sem vilja leika hlutverk ,,skoðanaleiðtoga". Leggjum við sjálfstætt mat á það sem við heyrum? Beitum við gagnrýninni hugsun? Varla er það göfugt markmið að leitast við að deyfa sig fyrir raunveruleikanum og leita huggunar í sýndarveruleika? 

Í grein Þorsteins er vísað til þess að sérfræðingar, fjölmiðlar o.fl. setji upp nokkurs konar leiktjöld í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að almenningur hugsi sjálfstætt. 

Í anda Sókratesar ber að minna á að það er skylda okkar að herða upp hugann, svipta leiktjöldunum til hliðar og skoða það sem við blasir í gagnrýnu ljósi. Aðeins þannig getum við orðið betri menn og lifað betra lífi, aðeins þannig getum við orðið virkir þátttakendur í lýðræðislegri umræðu og orðið fær um velja milli þess sem er rétt og rangt. 

Í stað þess að láta sérfræðingana leiða okkur inn í draumaland sýndarveruleika ber okkur að kasta af okkur hlekkjum óttans og hætta að láta berast með straumnum. Þetta er það sem Sókrates átti við með að ,,rannsaka líf sitt". Viðvörun hans á enn erindi við okkur, þ.e. að órannsakað líf er einskis virði. 

Það er ekkert göfugt við að kjósa að vera blindur á sjálfan sig og þora ekki að leita svara við stóru spurningunum, s.s. hver er ég, hver eru gildi mín, hverju vil ég áorka í lífinu, hvernig samfélag vil ég taka þátt í að móta, hverju trúi ég, hvaða hugsjónir vil ég standa vörð um? 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband