Kossar, faðmlög og algjör samstaða

Í flugvél á leið til Íslands um daginn sat ég við hlið manns sem var að lesa bók um samskipti Úkraínu og Rússlands. Í lok flugsins spurði ég hann hvers hann hefði orðið vísari. Hann svaraði því til að Úkraína hefði verið sjálfstæð og fullvalda í mjög skamman tíma á 20. öld, áður en ískaldur hrammur rússneska bjarnarins lagðist ofan á ríkið. Hann bætti því við að Úkraína hefði að vísu haldið ytri ásýnd lýðræðis, því þingið hefði starfað áfram og tekið ákvarðanir um allt sem engu skipti, en ákvörðunarvaldið hefði í reynd verið fært til Kremlar.

Birtast í þessu stef sem eiga nú við um Ísland? Samtalið vakti áhuga minn á því hvort leita mætti samlíkingar milli Sovétríkjanna sálugu og heimsvaldastefnu ESB.

Upprifjun

Ég er nógu gamall til að muna eftir ógn kalda stríðsins, einhliða framsetningu fjölmiðla, rússneska dagblaðinu Pravda sem birti „sannleikann“, flokksþingum kommúnista þar sem samstaðan og samhljómurinn var algjör, þar sem leiðtogarnir töluðu máli allra og ræðum lauk með standandi lófataki, þar sem andmæli voru ekki liðin og þar sem efasemdir voru taldir merki um geðveilu.

Óþægileg samsvörun?

Í þessu ljósi horfi ég nú á vestræna „leiðtogafundi“ með vaxandi ónotum, enda verður ekki betur séð en að þar ríki algjör eining. Þar faðmast menn og jafnvel kyssast í gamla Sovét-stílnum. Samhugur og samstaða eru leiðarstefin eins og í Kreml forðum. Hver sem vogar sér að ganga ekki í takt má búast við að ýtt út í kuldann.  

Sovétríki fortíðarinnar og ESB (nýja-sovétið?) eiga það sameiginlegt að stjórnvöld vantreysta kjósendum. Völdin eru talin betur geymd í höndum sérvalinna embættismanna sem vita að framtíð þeirra er háð velvilja pólitískra ráðamanna. Í slíku kerfi njóta hlýðnir flokksgæðingar sérréttinda.

Sovétríkin og ESB eiga það sameiginlegt að borgararnir sitja undir linnulausum áróðri / trúboði pólitísks rétttrúnaðar, sem beinist ekki síst gegn fullveldi þjóðríkjanna, en á sama tíma er stefnt að því að styrkja nýja, yfirþjóðlega og miðstýrða tegund fullveldis þar sem hagsmunir heimsveldisins sitja í fyrirrúmi, ekki hagsmunir þjóðríkisins, og þar sem skorið hefur verið á ábyrgð valdamanna við borgarana.

Nýja stjórnarfyrirkomulagið, eins og gamla Sovét, tekur miðstýringu fram yfir sjálfsákvörðunarrétt, velur valdbeitingu fram yfir frelsi, nálgast öll mál út frá sjónarhóli hópsins / hjarðarinnar og lítilsvirðir um leið rétt einstaklingsins. Þar er ríkiseiningin mikilvægari en borgarinn. Þar er stýrt undir fölsku lýðræðis-flaggi í átt að strönd alræðis, þar sem réttarfarið verður að sýndar-réttarhöldum, lýðræðið að leiksýningu og embættismenn verja valdhafa en ekki borgarana. 

Samantekt

Þeir sem ekki eru læsir á hættumerkin geta fallið í þá gryfju að vilja fórna fullveldinu og ganga yfirþjóðlegu valdi á hönd. Fyrir smáríki er slík ráðagerð hrein óhæfa enda verða þau þar með peð á taflborði heimsveldanna. Peð eru léttvæg fórn á slíkum taflborðum.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband