Á þjóðhátíðardegi

Í dag fögnum við 79 ára afmæli lýðveldisins. Sem örþjóð á jaðri hins byggilega heims megum við vera þakklát þeim sem lögðu grunninn að fullveldinu og lýðveldinu. Okkur ber að standa vörð um þessa undirstöðu frelsisins, því enginn er frjáls í ófrjálsu landi. Við drögum þjóðfánann okkar að húni með stolti, því hann er táknmynd frelsis okkar, heimkynna og fegurstu hugsjóna. Litirnir skírskota til íslenskrar náttúru, elds, íss og himins, en geta líka minnt okkur á að varðveita eldmóð, stöðuglyndi og heiðríkju hugans. Með þetta fyrir augum ber okkur að standa vörð um lýðræðislega stjórnarhætti og frjálslynda stjórnskipun sem stjórnarskráin okkar slær varnargarð um.

Morgublaðið 17. júní 2023

Í þessu samhengi bendir leiðarahöfundur Morgunblaðsins á að gæta þurfi ,,að stjórnskipulegu fullveldi landsins, að það molni ekki með valdaframsali í grandaleysi eða fyrir hentisemi skrifræðisins." Í sama blaði rita þrír ráðherrar Framsóknarflokksins grein um ,,Lýðveldið og framtíðina" þar sem þau heita því að leggja sitt af mörkum ,,til að treysta stoðir Íslands". Við lestur greinarinnar leitaði á hugann myndlíking af fólki sem í dagsljósi ber fúavörn á stoðir hússins, en grefur undan þessum sömu stoðum í skjóli myrkurs. Ég nefni þetta því ég veit ekki annað en að þetta sama fólk styðji (ennþá) frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35, sem að mínu mati er gróf atlaga að íslenska lýðveldinu, íslensku lýðræði og fullveldisrétti þjóðarinnar. Í mínum bókum heitir þetta loddaraháttur sem draga verður athygli að, því meirihluti Íslendinga hefur óbeit á tvískinnungi og skrumi.

Þegar hinn þögli meirihluti áttar sig á inntaki frumvarpsins um bókun 35 munu vindarnir snúast svo kröftuglega að stuðningsmenn frumvarpsins á Alþingi munu þurfa að finna sér aðra vinnu eftir næstu kosningar.

Beinskeyttur Kári

 

Huldumaðurinn Kári skrifar samantekt á vefsíðu Ögmundar Jónassonar, þar sem hann lýsir inntaki frumvarpsins um bókun 35 með því að minna á að bókunin hafi verið innleidd sem lögskýringarregla, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, og kveði á um það að ef (þegar) árekstur verður á milli ákvæða Evrópuréttar og innlendra laga skuli Evrópuréttur hafa forgang. Kári bendir á að ráðherrar afbaki málið með því að segja það snúast um rétthæð á milli innlendra laga innbyrðis. ,,Evrópuréttur verður áfram Evrópuréttur þótt hann hafi verið innleiddur með íslenskri lagasetningu á Alþingi". Með frumvarpinu er stefnt að því að festa í sessi forgang Evrópuréttar gagnvart íslenskum rétti. Stjórnmálamenn sem afneita þessu fara með ósannindi segir Kári. Slíkum blekkingarleik verður ekki haldið gangandi mikið lengur.

Þegar allir þeir sem í dag fagna þjóðhátíðardeginum átta sig á óheilindunum og trúnaðarbrestinum sem hér liggur fyrir verður uppstokkun í íslenskum stjórnmálum. 

Gleðilega þjóðhátíð.  

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband