21.6.2023 | 11:36
Stjórnmál án ábyrgðar
Íslendingar hafa alla tíð byggt afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda. Almenn hagsæld á Íslandi síðustu hundrað ár helst í hendur við það að við náðum fullveldisrétti yfir auðlindum okkar. Á síðustu dögum hefur afhjúpast hvernig kjörnir fulltrúar Íslendinga hafa í framkvæmd vikið sér undan hlutverki sínu og framselt ákvörðunarvald í þessum efnum til ESB annars vegar, sbr. stöðvun Hvammsvirkjunar, og til lágt settrar sérfræðinganefndar hins vegar, sbr. hvalveiðibannið.
Skaðleg ranghugmynd
Of lengi hafa íslenskir stjórnmálamenn umgengist völd sín af hirðuleysi, mögulega á grundvelli þeirrar alvarlegu ranghugmyndar unnt sé að búa til og búa við einhvers konar sjálfvirkt stjórnarfar, þar sem reglurnar eru samdar af erlendum stofnunum og innlendum sérfræðingum, en hlutverk stjórnmálamanna sé þá aðeins í því fólgið að samþykkja / hafna lagafrumvörpum í takt við flokkslínur.
Fullveldisrétt ber að nýta, ekki ónýta
Frammi fyrir þessu ber að minna á að samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fer Alþingi með löggjafarvaldið. Slík ákvæði eru ekki gluggaskraut og standa ekki í stjórnarskrá til þess eins að veita lýðræðislega ásýnd. Í aldanna rás og enn í dag hafa menn reynt fyrir sér með annars konar stjórnarfyrirkomulag en lýðræði. Þar hafa menn sett stjórnartaumana í hendur tiltekinnar ættar, stéttar, klíku, fámenns hóps eða auðmanna. Allar þessar tegundir stjórnarfars þekkjum við Íslendingar, sumar af eigin reynslu, en aðrar af vondri afspurn. Sagan sýnir að þótt slíkt stjórnarfar geti haldið velli um lengri eða skemmri tíma veitir það almenningi enga tryggingu gagnvart mismunun, misnotkun valds og afnámi réttinda.
Fullveldi þjóðar er ekki lítilfjörlegt atriði, þvert á móti. Í fullveldinu felst óskoraður réttur ríkis til að fara með æðsta vald í eigin málum. Fullveldi er að þessu leyti samofið orðum eins og frelsi, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti.
Fullveldi er lykilhugtak í stjórnmálum og hefur verið frá örófi alda. Fyrir Íslendinga ætti þetta að blasa sérlega skýrt við. Fram kemur í 1. gr. EES-samningsins að hann miði að því að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði. Í framkvæmd hefur orðið æ skýrara að þetta yfirlýsta markmið gengur í ýmsu tilliti gegn sjálfsákvörðunarrétti íslensku þjóðarinnar og jafnvel að því er auðlindir hennar varðar.[3] Á grundvelli EES-samningsins hefur ákvörðunarvald í sífellt ríkari mæli færst frá Íslandi til Brussel, jafnvel í því sem árið 1993 var augljóslega talið falla undir innanríkismál á Íslandi. Síðastnefnt atriði má t.d. sjá í því hvernig innflutningur á hráu kjöti til Íslands, sem frá upphafi var alfarið bannaður, hefur á síðari stigum verið færður undan innflutningsbanni með skírskotun til þess að hrátt kjöt sé vara í skilningi EES-samningsins.[4] Hér er mikið í húfi: Hver á að setja reglur fyrir Íslendinga og um íslenskt land annar en íslenskur löggjafi? Hver á að fara með ákvörðunarvald um skatt- og tollheimtu? Um hagnýtingu (og vernd) náttúruauðlinda? Um eignarhald á bújörðum? Um landnýtingu? Um hagstjórn á Íslandi? Íslensk hagstjórn fer best í höndum íslenskra yfirvalda sem þekkja aðstæður og geta hagað seglum eftir vindi og aðstæðum.
Með fullgildingu EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, undirgekkst íslenska ríkið vissulega nýja skipan mála varðandi regluverk og innleiðingu erlendra reglna. Þar með er þó ekki sagt að óheimilt sé að gagnrýna hvernig haldið hefur verið á spilunum í réttarframkvæmd. Gagnrýnin umræða um þessi efni hlýtur m.a. að byggja á fenginni reynslu og hverfast um hlutskipti Íslands í þessu samhengi, m.t.t. áframhaldandi aðildar að EES-samningnum og eðlilegrar hagsmunagæslu.
Samantekt
Fullveldi er nú sem fyrr undirstaða stjórnmála og lagasetningar, því það ber með sér þann grundvallandi rétt sérhverrar þjóðar að eiga síðasta orðið um innihald laga og þar með þann grunn sem dómstólar og framkvæmdavald starfa á. Í þessu ljósi blasir við nauðsyn þess að valdhafar á Íslandi beri skynbragð á aðstæður hér á landi, hlusti á vilja kjósenda og síðast en alls ekki síst: Svari til ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.