Réttlætisgyðjan er blind, harðstjórinn ekki

Í bloggi sínu í gær fjallar Geir Ágústsson um forsætisráðherra Kanada og segir að til séu

margar leiðir til að sýna umburðarlyndi.

Ein er sú að umgangast einstaklinga af virðingu og kurteisi og fá í staðinn eitthvað svipað. Þá er allt svo einfalt. Í slíku umhverfi er meira að segja hægt að rífast án þess að það sé annað en heilbrigð skoðanaskipti.

Önnur er sú að setja einstaklinga í hólf sem byggjast á líkamlegum eiginleikum og blæbrigðum í skoðunum og líðan, og búa svo til sérstakar reglur um umgengni og talsmáta sem taka til hvers hólfs. Þeir sem fylgja ekki reglunum eru fordómafullir. Þá er allt svo flókið.

Því miður er flókna leiðin í dag vinsælli en sú einfalda, a.m.k. ef marka má fjölmiðla og tungutak stjórnmálamanna. Sem persónugerving hinnar flóknu leiðar er forsætisráðherra Kanada, eins og sést á þessari mynd:

signal-2023-06-27-21-32-08-070

Þessi maður, sem fangelsar heiðarlega borgara og sviptir þá eigum sínum ef þeir tala gegn stefnu hans, er búinn að hólfa einstaklinga og beitir síðan mismunandi reglum á hvert hólf. 

Í grein sem undirritaður birti í ritinu Hæstiréttur og Háskóli Íslands - Rit til heiðurs Hæstarétti 100 ára (útg. 2020) fjalla ég m.a. það að málflutningur hljóti að miða að sannleiksleit, þ.e. að leiða í ljós hvað teljast má satt og rétt [...] þannig að unnt sé að komast að ,,yfirvegaðri niðurstöðu á grundvelli kerfisbundins jafnræðis, sem kenna má við kröfur réttlátrar málsmeðferðar, þar á meðal um fordómaleysi[...]"

Að baki þessum línum býr skírskotun til mismunar á heimspeki í anda Sókratesar sem miðar að sannleiksleit og sófisma í anda farandkennara í Grikklandi til forna sem beittu rökbrellum, hártogunum og útúrsnúningum.

Þessi togstreita er enn sjáanleg og hún birtist daglega á hinu pólitíska sviði, en vissulega stundum einnig fyrir dómstólum. Á meðan sumir leita sannleikans með vísan til staðreynda leggja aðrir meiri áherslu á sannfæringarkraft og höfða til tilfinninga. 

Í fyrrnefndri grein undirritaðs segir um þetta:

Ef dómurum væri heimilt að kasta staðreyndum út um gluggann og láta kreddur, fordóma og tilfinningar ráða niðurstöðunni væri verið að opna ormagryfju sem reynslan sýnir að erfitt er að loka aftur.

Á tímum eins og þeim sem við nú lifum, þar sem póst–módernískri hugmyndafræði hefur verið beitt til að afbyggja margt það sem til skamms tíma hefur flokkast undir sannindi og burðarstoðir vestrænnar stjórnskipunar, er full ástæða til varúðar á vettvangi laga og lögfræði. [...] Réttlætisgyðjan er táknmynd æðstu hugsjóna um réttlæti og réttarríki. Blindandi leggur hún röksemdir málsaðila á vogarskálarnar og metur þær áður en hún notar sverð réttlætisins til að höggva á hnúta. Valdi sínu beitir hún ekki af geðþótta heldur samkvæmt lögum. Þetta er táknað með því að hún stendur með annan fótinn á lögbók til marks um það að hún dæmi ekki af geðþótta heldur á grunni laga og sannleika. Þá stendur hún jafnan ofan á höfði höggorms,[3] til að minna á að dómar hennar skuli vera óspilltir og að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.[4] Á þeim hraðfleygu tímum sem við höfum lifað sl. áratugi, þar sem áhrif svonefnds póst–módernisma hafa verið áberandi á sviði bókmennta, lista og jafnvel rutt sér til rúms á vettvangi stjórnmála með tilheyrandi áhrifum á lög, er réttlætisgyðjan væntanlega ein þeirra táknmynda sem rétt er að ryðja um koll, eða hvað? Ef lýsa ætti táknmynd alls þess sem er andstætt því sem réttlætisgyðjan stendur fyrir þá mætti freista þess með því að draga upp mynd af yfirgangssegg: Aðalsmerki viðkomandi gæti verið sleggja eða annað barefli reitt til höggs yfir þeim sem fallið hafa í ónáð hjá valdhafanum á þeirri stundu, augun eru opin og hvöss, eyrun eru refseyru (skollaeyru) og þau eru lokuð að öðru leyti en því að höggormur sem vafið hefur sig um háls viðkomandi og borað trýninu undir annað eyrað þar sem hann á einkaaðgang að hinum innri hlustum. Yfirgangsseggurinn er dólgur og valdníðingur sem fer í manngreinarálit, beitir geðþóttavaldi, vílar ekki fyrir sér að fremja óhæfuverk til að halda völdum, dregur menn í dilka á grundvelli útlitseinkenna, stéttar, stöðu, aldurs, kyns og hvers kyns annarra atriða sem nota má til að styrkja staðalímyndir (stereótýpur) og ala á ótta í anda tvíhyggju, þar sem heiminum er skipt upp í góða og vonda. Þessi andhverfa réttlætisgyðjunnar er fasismi.[5]

 

[1] Um síðarnefndu takmarkanirnar má visa til skáldaðrar frásagnar Ronalds Dworkin um dómarann Hercules, sjá Ronald Dworkin: Taking Rights Seriously, bls. 116 o.áfr.

[2] Sjá nánari umfjöllun höf. um þetta, Arnar Þór Jónsson: „Og sjá þú fellur fyrir draumi þínum“, bls. 187–225.

[3] Sbr. Lúk. 10:19, „Ég hef gefið yður vald til að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein.“

[4] Sbr. 5. Mós. 1:16–17, „Síðan gaf ég dómurum ykkar þessi fyrirmæli: „Hlýðið á mál bræðra ykkar. Kveðið upp réttláta dóma, hvort heldur málaferlin eru milli bræðra eða við aðkomumann sem nýtur verndar. Verið ekki hlutdrægir í dómum, hlýðið jafnt á háan sem lágan. Óttist engan mann því að dómurinn er Guðs. Reynist eitthvert mál ykkur um megn, þá skjótið því til mín og ég mun hlýða á það.“

[5] Í þessu samhengi er ástæða til að árétta að fasismi er aðferð til að ná og halda völdum. Fasismi getur birst í gervi bæði vinstri og hægri stjórnmála. Fasismi er í raun ekki annað pólitísk aðferðafræði þar sem fingri er bent á „óvini“ fólksins, en um leið reynt að höfða til tilfinninga þeirra sem ræðumaður telur tilheyra „sínum hópi“, þ.e. þeirra sem hafa sameiginleg útlitseinkenni eða hagsmuni (oftast meirihlutinn). Fasismi miðar að því að ryðja burt sannleikanum og setja valdið eitt í sannleikans stað. Stalín og Maó voru fasistar í þessum skilningi ekki síður en Mussolini og Hitler.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband