2.7.2023 | 10:06
Lestarferð út í óvissuna
Líkja má stöðu almennings gagnvart ríkisvaldi við það þegar við kaupum okkur lestarmiða frá A til B. Með því að kaupa miðann (greiða atkvæði) lýsum við yfir trausti til lestarstjórnenda og veitum þeim umboð til að flytja okkur á áfangastað á sem skemmstum tíma og vandræðalaust. Umboð lestarstjórnenda er sem sagt takmarkað og allir vita að um borð eru neyðarhemlar (stjórnarskrárákvæði) sem grípa má í ef hætta er á ferðum, t.d. ef lestin er farin að bruna of hratt eða ef henni er stýrt inn á vitlausa teina. Neyðarhemlarnir eru öllum aðgengilegir, ekki bara fólki á fyrsta farrými. Með sama hætti er alls staðar sýnileg neyðaropnun á lestargluggum. Aðgengi að þessum öryggistækjum er grunnforsenda fyrir því að fólk kaupir sér far með lestinni.
Hvað gerist um borð í slíkri lest þegar hún sjáanlega eykur hraðann vegna lestar sem sögð er nálgast of hratt (t.d. óþekktur vírus)? Jú, þá er hátalarakerfið notað til að róa fólk, segja því að hlusta bara á tilkynningar lestarstjóra, treysta engu öðru, óla sig niður í sætið og hlýða, ekki leita sjálft að upplýsingum því símarnir birti falsupplýsingar í bland við staðreyndir sem enginn geti túlkað rétt nema faglærðir lestarstjórar. ,,Treystum sérfræðingunum" heyrir þú fólk segja við hvert annað um leið og það velur sér nýja bíómynd til að horfa á í afþreyingarkerfinu.
Hvað gera hinir þegar þeir sjá að lestin hefur tekið nýja stefnu? Hvað ef þú sérð lestarvörðinn aftengja neyðarhemlana (mannréttindaákvæði stjskr.) með vísan til þess að ástandið sé ,,fordæmalaust"? Hvað gerir almenningur þegar hann sér að eftirlitsmennirnir (þingmenn, ráðherrar, forseti, fræðimenn, faglærðir sérfræðingar, lögmannafélagið, fjölmiðlamenn o.fl.) aðhafast ekkert og þykjast ekki sjá að lestin er komin út af sporinu? Hvað ef fólkið á fyrsta farrými neitar að bregðast við með vísan til þess að þeim líði sjálfum ljómandi vel? Hvað gerist ef í ljós kemur svo, að stjórntæki lestarinnar eru rykfallin af notkunarleysi og lestinni er fjarstýrt af fólki sem situr órafjarlægð og svarar engu?
Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að slík lestarferð endi vel?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.