Varúð: Samtakaríkið hefur raungerst

Í fyrri greinum, útvarpsþáttum og víðar hef ég ítrekað varað við því ástandi sem nú hefur raungerst hér á Íslandi, þ.e. samruna stjórnmála og stórfyrirtækja. Fram á síðustu ár höfum við í einfeldni trúað því að kerfið, sem kostað er með skattfé almennings þjóni þessum sama almenningi. Með hverjum deginum kemur betur í ljós að kerfið þjónar sjálfu sér og þegar verst lætur vinnur það beinlínis gegn hagsmunum almennings. lenin

Þegar hægri flokkar færa sig yfir til vinstri og vinstri flokkarnir til hægri, þá fara af stað eitraðir straumar, eins og saga 20. aldar sýndi átakanlega. Við þessar aðstæður verður til fyrirbæri sem kalla má samtakaríkið (e. corporate state). Í slíku ríki verður allt tal um lýðræði þyrnir í augum valdhafa, því lýðræðið er til þess fallið að raska þessu ,,þægilega" jafnvægi sem nú ríkir. Í ólýðræðislegu andrúmslofti samtakaríkisins hopa upplýsingar fyrir áróðri um leið og fjölmiðlar eru gerðir að málpípum stjórnvalda. Í slíku ríki verður ákæruvaldið pólitískt og lögreglan að varðhundum valdsins. 

Samtakaríkið leiðir fram það versta sem stjórnmálin hafa fram að færa: Stórfyrirtækin sem vaxið hafa í skjóli frjálshyggju hægri flokka verða hluti af valdakerfinu sem svo fyllist af vinstri mönnum sem loks fá útrás fyrir þann sósíalíska draum að stjórna sem flestum þáttum mannlífsins. 

Í framkvæmd er þetta mjög óhagstætt einstaklingsframtakinu, samfélaginu, þjóðríkinu og Alþingi. Kreddufullir vinstri menn kalla eftir stöðugt fleiri innflytjendum og slíkt hentar vel fyrirtækjum sem þurfa ódýrt vinnuafl. Innviðir brotna að lokum undan þunganum og afleiðingin verður glundroði. Til að leysa þann vanda mun almenningur að lokum kalla eftir lögregluríki sem leggur hlekki um háls hvers einasta manns til að tryggja ,,öryggi" þeirra.

Þetta er fyrirkomulag sem þjónar öllum hagsmunaaðilum vel: Ríkið hefur ótakmarkaðan aðgang að tekjum almennings með stöðugt meiri skattheimtu og stórfyrirtækin hafa aðgang að fjármunum almennings í gegnum lífeyrissjóði sem fjárfesta á markaði. 

Til að viðhalda þessari stöðu má nýta fjölmiðla til deyfingar og dulinnar innrætingar, menntakerfið (þar á meðal háskólana) til að heilaþvo mannskapinn og kenna þeim ,,rétta" hugsun og ,,réttar" skoðanir. Á þann hátt er tryggt að ætíð sé nægt framboð af þægu fólki til að manna stöður í embættismannakerfinu, sem nýtist vel til eftirlits og eftirfylgni.

Ef eitthvað er óljóst í framkvæmd, þá er það ekki vandamál, því framangreint stjórnarfar er mjög í anda Leníns og hentugar leiðbeiningar hans má finna í alræmdum bæklingi, sem sá ,,góði" maður gaf út árið 1902. Um það rit verður mögulega fjallað síðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband