8.7.2023 | 10:01
Á meðan Róm brann ...
Í Róm spilaði keisarinn á hljóðfæri meðan borgin brann. Öfugt við íslensk stjórnvöld nútímans horfði Neró beint í logana meðan hann vanvirti ábyrgð sína. Mikil er ógæfa þess lands þar sem stjórnvöld viðhafa engar brunavarnir og neita jafnvel að horfa á eldsbjarmann þegar hann birtist.
Af ábyrgðarleysi og barnaskap treysta íslensk stjórnvöld á að aðrar þjóðir komi okkur til varnar ef ráðist verður á landið. Við höfum ekki einu sinni burði til að verja hér mikilvæga innviði meðan beðið væri eftir aðstoð annarra Nato þjóða. Á þetta bendir Arnór Sigurjónsson í Morgunblaðsgrein í dag. Arnór er fyrrverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Orð hans undirstrika að í reynd gæti erlent herveldi hernumið Ísland fyrir hádegi á fyrsta degi, með því að taka flugvelli, stjórnarráðið, fjölmiðla, lögreglustöðvar o.fl., án nokkurs raunverulegs viðnáms af hálfu íslenska ríkisins.
En kannski þarf ekki hervald til að skipta út íslenskri tungu og íslenskri menningu. Um þetta fjallar Ögmundur Jónasson í grein sinni í sunnudagsblaði Moggans. Ragnar Önundarson hefur bent á að með sama áframhaldi verði innfæddir Íslendingar orðnir minnihluti hér á landi árið 2035! Hér þarf að hægja á til að afstýra megi margþættum fjárhagslegum og samfélagslegum vanda.
En eins og Neró forðum hafa íslenskir ráðamenn ekki gert neinar áætlanir um hvað skuli gert til að fyrirbyggja að eldarnir verði stjórnlausir.
Nei, þvert á móti. Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp um bókun 35 sem miðar að stórfelldu framsali valds úr landi, sem í framkvæmd mun daglega þverbrjóta stjórnarskrá lýðveldisins. Á sama tíma er frumvarp til nýrra sóttvarnalaga á hraðferð í gegnum þingið, sem sömuleiðis miðar að stórfelldu valdframsali til WHO, þvert gegn stjórnarskrá, fullveldisrétti Íslands og gegn lýðræðislegum stjórnarháttum.
Ef lesendur telja að hér að framan sé með ósanngjörnum hætti gefið til kynna að Alþingi sé fullt af froðusnökkurum og að aðrar þjóðir eigi þó örlítið skárri þingmenn sem þora að beina kastljósinu að erfiðum málum, þá er hér samanburður: Annars vegar er hér innihaldslaus 1. umræða á Alþingi um frumvarp til sóttvarnalaga. Hins vegar er hér umræða bandarískra þingmanna um sama efni. Til hliðsjónar er bent hér á umsögn sem undirritaður sendi inn á samráðsgátt um þetta mál í febrúar 2022.
Að lokum: Þeir sem vilja ímynda sér að íslendingar (og heimurinn) þurfi ekki að hafa áhyggjur af stríðsrekstri, né af frelsisheftandi aðgerðum vegna nýrrar veiru mættu íhuga þá staðreynd að vígbúnaðariðnaðurinn hefur hagsmuni af því að stofnað sé til ófriðar; lyfjaframleiðsluiðnaðurinn hefur hagsmuni af því að fjármagnaðar séu rannsóknarstofur sem mögulega framleiði nýjar veirur; samtakaríkið hefur hagsmuni af því að þjappa saman valdi og aftengja það frá kjósendum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.