9.7.2023 | 11:50
Skuggarnir lýstir upp
Svona sólbjartur og hlýr sumardagur er best nýttur í að endurnýja trú sína á mannkynið og vonina um betri tíma þar sem m.a. verður unnt að betrumbæta stjórnkerfið sem við búum við í dag. Þegar ég lít til baka yfir atburði síðustu ára eru þar nokkrar myndir sem ég vildi gjarnan geta losnað við úr undirvitundinni:
Dæmi:
- Í miðbæ Akureyrar, undir berum himni, mætti ég flóttalegum, fullorðnum manni með taugrímu í þykku skegginu, sem skömmu fyrir kófið hafði, á tónleikum með Dúndurfréttum, sungið með fullnum sal tónleikagesta texta Rage against the machine af sjáanlegri innlifun og með hnefann á lofti: ,,F... you, I won´t do what you tell me!".
- Vinafólk mitt sem telur sig frjálslynt og réttsýnt birti myndir af sér á ferðalagi um mið-Evrópu þar sem þau sýndu, hróðug, bóluefnapassa sína til að vekja athygli á að nú hefðu þau sýnt gott fordæmi í hlýðni við stjórnvöld og kæmust óhindrað til útlanda, á listasöfn, leikhús o.fl.
- þegar starfsmaður í Borgarleikhúsinu vildi setja á mig límmiða til að votta það að ég væri ,,hreinn" og mætti ganga um leyfð rými hússins sem afmörkuð voru með plastsnúrum
- þegar kollegar mínir í dómarafélaginu vildu setja höft á lögmæta tjáningu mína, sem öll var rituð til varnar lýðræðislegum stjórnarháttum og efnislegu réttarríki
- þegar ég, sem lögmaður, sá fulltrúa ákæruvalds varpa frá sér hlutlægnisskyldu og faðma kæranda eins og lögmaður viðkomandi
- þegar ég áttaði mig á því að frjáls hugsun á sér ekki öruggt athvarf í háskólaumhverfinu
- þegar forseti lýðveldisins notaði ræðustól Alþingis til að sneiða að óvinsælum þjóðfélagshópi með því að tala um ,,rangsnúinn rétt" þeirra til að smita. Þessi orð hefur forsetinn ekki útskýrt og ekki beðist afsökunar á. Fram að þessu hafði ég í einfeldni talið að hlutverk forseta væri að sameina þjóðina, ekki að sundra henni
- þegar ég áttaði mig á að þingmenn og ráðherrar veita erlendum stofnunum ekkert raunverulegt viðnám
- þegar ritstjóri Fréttablaðsis boðaði aðskilnaðarstefnu í leiðara blaðsins 13. nóvember 2021
- þegar myndir birtust af lögreglumönnum að berja hús að utan til að telja fjölda gesta
- þegar fólk sat eitt í bílum sínum með grímur fyrir andlitinu
Hver er lærdómur síðustu missera? Trúum við öllu sem við heyrum og sjáum? Eitt er að trúa öllu gagnrýnislaust og hlýða. En hvað með þá sem trúa ekki en hlýða samt? Snýst lífið um að halda ytri ,,standard"? Ég hefði haldið að innri ,,standardinn" sé mikilvægari, þ.e. heilindi og hrein samviska.
Ég skrifa þetta með hugann við alla þá sem senda mér, nánast daglega, skilaboð og segjast vera sammála mér en þora ekki að tjá sig, þora ekki að sýna öðrum hver þau eru, hvað þau hugsa, hvað þeim finnst.
Í samfélagi sem stöðugt dásamar umburðarlyndi, náungakærleika og fjölbreytni er súrt að standa frammi fyrir því að í reynd er reynt að útskúfa, útiloka og þagga niður í þeim sem vilja iðka gagnrýna hugsun, hlýða ekki fyrirvaralaust, spyrja málefnalegra spurninga, standa með sannfæringu sinni, samvisku og trú.
Við hljótum að geta gert betur. Ert þú að nota þína eigin rödd, þitt eigið málfrelsi, eða siturðu þegjandi á kantinum og vonar að aðrir ,,reddi" málunum? Ef þú vilt forða samfélaginu frá því að verða alræði, harðstjórn og kúgun að bráð, þá verður þú að axla ábyrgð og taka þátt í að byggja upp og verja frjálsa samfélagsgerð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.