14.7.2023 | 11:19
Stokkhólmsheilkennið?
Gullhúðunarárátta Íslendinga birtist ekki aðeins í beinu fjárhagslegu tjóni íslenskra fyrirtækja, heldur einnig í duldum kostnaði hjá íslenskum yfirvöldum sem dunda sér við að prjóna við erlent regluverk og íþyngja þannig íslensku atvinnulífi.
Samtöl mín við persónur og leikendur á þessu sviði fylla mig engri bjartsýni:
- Þegar íslensk yfirvöld eru gagnrýnd fyrir að algjörlega bremsulausa innleiðingu á EES reglum eru svörin þau að þetta sé ,,alls ekki stjórnlaust"(!), því reglurnar fái vandaða umræðu / meðferð. Eins og fram kemur í viðtalinu við Öglu Eir er innleiðingarkerfið okkur fremur til skaða en til bóta. Tölfræðin talar sínu máli: Íslendingar hafa aldrei beitt neitunarvaldi í bráðum 30 ára sögu EES samningsins!
- Í gær hitti ég atvinnurekanda sem býr við þetta umhverfi og hefur horft á regluverkið verða stöðugt þéttara og ógagnsærra sl. áratugi. Eina tillaga hans var sú að Íslendingar hætti gullhúðun og innleiði reglurnar bara eins og þær koma frá ESB. Í mínum huga ber slíkt hugarfar ekki vott um andóf, heldur uppgjöf gagnvart skrifræðinu og stimplaveldinu.
Merkum áfanga væri náð ef Íslendingar gætu viðurkennt að EES ,,samstarfið" í núverandi mynd hefur þvingað okkur inn í áhorfandahlutverk, þar sem við höfum engin áhrif á reglurnar önnur en í mesta lagi að gera þær verri. Launaðir embættismenn okkar (þ.m.t. þingmenn) föndra við reglurnar án þess að geta breytt þeim okkur til hagsbóta, hafnað þeim eða afnumið.
Samantekt
Myndin birtist hér að framan er grafalvarleg í lýðræðislegu og stjórnskipulegu samhengi og hún mun versna til mikilla muna ef Alþingi ætlar að samþykkja frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Íslendingum er samkvæmt þessu ætlað að búa við löggjöf sem stendur ofar gagnrýni, ofar allri umræðu. Við eigum að sætta okkur við það að hér sé orðið til einhvers konar lögmálskerfi, þar sem erlendar valdastofnannir sendi reglur í pósti, án aðkomu kjörinna fulltrúa Íslendinga, án nauðsynlegrar valdtemprunar, án skynsamlegs aðhalds og án möguleika á eðlilegri aðlögun gagnvart íslenskum aðstæðum og íslenskum hagsmunum. Ef Íslendingar ætla að vera sjálfstæð þjóð meðal þjóða geta þeir ekki sætt sig við stjórnskipulag sem hallar svona grímulaust á okkar hag.
Ekki nema við séum illa haldin af Stokkhólmsheilkenninu.
Íþyngjandi regluverk læðist inn og fitnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.