20.7.2023 | 08:19
Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá
Í framhaldi af grein Óla Björns Kárasonar í gær og ádrepu eftir Jón Steinar Gunnlaugsson sem birtist á FB fyrir nokkrum dögum [sjá https://www.facebook.com/permalink.php... ] birti ég eftirfarandi grein í Morgunblaðinu í dag sem framlag til þessarar mikilvægu umræðu. Hlutverk þingflokks Sjálfstæðisflokksins er að verja sjálfstæðisstefnuna og framfylgja henni. Ég er ekki einn um það að telja flokkinn hafa hörfað allt of langt út á vinstri vænginn. Þaðan er hvorki hægt að verja sitt eigið mark, né sækja fram á breiðum grunni. Ósk mín er sú að Sjálfstæðismenn finni hjá sér styrk og þor til að framfylgja stefnu flokksins, ekki aðeins í orði, heldur einnig í verki.
Hér er texti greinarinnar:
Í Morgunblaðsgrein í gær, 19. júlí 2023, gerir Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðisstefnuna að umfjöllunarefni. Óli Björn er góður penni og vert er að þakka honum fyrir að beina athygli lesenda að þeim góða grundvelli sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á. Grunnviðmið eru mikilvæg, því stefnumörkun miðast við þau, en missi menn sjónar á gildum sínum er voðinn vís. Af öllu framangreindu leiðir að það er skylda kjósenda að hafa eftirlit með því hvernig kjörnum fulltrúum gengur að framfylgja stefnunni. Í anda þeirra sjónarmiða sem Óli Björn nefnir í grein sinni, hef ég talið ástæðu til að spyrja hvort forysta flokksins og meirihluti þingflokks hans hafi tapað áttavitanum og týnt stefnunni, gleymt tilgangi sínum, orðið viðskila við hlutverk sitt og glatað þeirri framtíðarsýn sem sjálfstæðisstefnan birtir. Í flokki sem aðhyllist málfrelsi er ekki bannað að spyrja slíkra spurninga og kalla eftir svörum.
Ekki er óeðlilegt þótt almennir sjálfstæðismenn, undirritaður þar á meðal, geri athugasemdir við útþenslu ríkisins á vakt flokksins, andmæli frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35, skori á þingflokkinn að standa gegn aðgerðaáætlun forsætisráðherra gegn tjáningarfrelsinu, mótmæli skattahækkunum og kalli eftir því að þingmenn standi tryggan vörð um fullveldi Íslands og stjórnarskrá lýðveldisins.
Sjálfstæðisstefnan er dýrmæt perla sem kjörnum fulltrúum ber að verja og fægja í verki, en ekki með innantómum frösum. Hafandi fylgst náið með framgöngu kjörinna þingfulltrúa hef ég vissar áhyggjur af því að sjálfstæðisstefnan margumtalaða sé að verða að innantómu gluggaskrauti í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Ef mönnum er umhugað um að gæða stefnuna lífi þarf að sýna það í verki. Ég skora á þingmenn flokksins að ganga þar fremstir í flokki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.