24.7.2023 | 09:42
Nýmæli og tvímæli
Frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 felur í sér bæði nýmæli og tvímæli.
Nýmælin birtast í fyrri hluta fyrri setningarinnar, þ.e. þessum orðum hér: ,,Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar". Þetta felur í sér þá nýjung að erlend löggjöf skuli almennt ganga framar íslenskum rétti. Höfundur þekkir engin dæmi um að löggjafarþing í frjálsu landi hafi gengisfellt sjálft sig með þessum hætti án undangenginna kosninga um slíkt. Alþingi hefur ekkert lýðræðislegt umboð til að grafa með þessum hætti undan meginstoð lýðveldisins, sem er íslenskt löggjafarvald.
Tvímælin birtast í seinni hluta sömu setningar, þ.e. eftirfarandi orðum: ,,[...] nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað". Í þessu felst að Íslendingar væru ofurseldir stöðugri réttaróvissu um hver væru gildandi lög í landinu og gætu ekki treyst því sem stendur í íslensku lagasafni. Þjóð sem er þannig týnd í þokunni og veit ekki hvaða reglur gilda er auðveldari í taumi en sú sem veit hver réttur hennar er. Hér er verið að opna stjórnarfarslega ormagryfju. Til framtíðar er slíkt til þess fallið að stórskaða íslenskt stjórnarfar og íslenskt lýðræði með fordæmalausum hætti.
E.S. Frammi fyrir þessum fórnarkostnaði er rétt að menn spyrji sig hver ávinningurinn er af þessari fyrirhuguðu þjónkun og undirgefni við ESB. Í leit að svörum er nærtækast að líta til reynslu Breta sem kusu að endurheimta fullveldi sitt með Brexit. Þvert gegn heimsendaspám úrtölumanna liggur nú fyrir, skv. Daily Telegraph í dag, að útflutningur Breta til ESB hefur aukist frá 2019, ekki minnkað. Útflutningur til ESB nemur nú 52% af heildarútflutningi Breta og hefur hækkað úr 50% frá 2019. Lesa má í fréttinni upprifjun á því að fimmtungur breskra framleiðenda hygðist segja upp starfsfólki vegna Brexit og að útganga Breta myndi stórskaða bresk fyrirtæki. Þessar spár hafa ekki ræst. Breskur iðnaður hefur aðlagast breyttum markaðsaðstæðum, þrátt fyrir áskoranir í formi vaxtahækkanna o.fl.
ESB er aðeins brot af heimsmarkaði og Íslendingar hafa mörg tromp á hendi til gjaldeyrisöflunar. Í því ljósi er sérkennilegt að íslenskir þingmenn vogi sér að grafa undan sjálfstæði okkar og fullveldi til að þóknast skrifstofubákninu í Brussel og tryggja einsleitni við ESB rétt án skýrs lýðræðislegs umboðs. Óvarkárari menn en ég gætu notað stór orð um slíkt athæfi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.