25.7.2023 | 09:52
Fangabúðir hugans
Þorsteinn Siglaugsson birti grein í Mogganum í gær sem endar á þessum orðum:
Þetta er alræði almenningsálitsins, alræði umburðarleysisins þar sem sérhvert frávik, brandari, illkvittnisleg athugasemd, ögrandi fullyrðing verður að ófyrirgefanlegum glæp. Þar sem einstaklingseinkennin, efinn og hugsunin, sem þrátt fyrir allt áttu sér athvarf í andófsritum, neðanjarðarleikhúsum, bröndurunum um yfirvöldin á tímum Stalínismans hljóta að láta endanlega undan, í samfélögum sem eru að sögn hin frjálsustu og lýðræðislegustu í sögunni en einkennast æ meir af dauðhreinsun á grunni andlegra lýðheilsusjónarmiða.
Lesendur eru hvattir til að íhuga þessi orð vandlega í ljósi þess hvernig vestræn þjóðfélög færast sífellt nær stjórnarfari sem best verður lýst sem ,,mildilegu alræði". Þetta ástand hefur læðst að okkur eins og þoka og hefur vaxið hægt og hljótt meðan almenningur situr feitur, dofinn og aðgerðalaus yfir ruslfæði, skemmtifroðu og opinberum áróðri. Stríðsvélarnar mala og soga til sín skattfé, sem einnig er nýtt til að belgja út skrifstofuveldi sem svarar ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart almenningi. Í slíku stjórnskipulagi umbreytast þjóðþingin í áhrifalaus málfundafélög en valdið er afhent fjarlægum, ólýðræðislegum og yfirþjóðlegum stofnunum, sbr. t.d. frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 og frumvarp heilbrigðisráðherra til nýrra sóttvarnalaga. Í þessu umhverfi má skapa aðstæður þar sem unnt er að taka stjórnarskrárákvæði úr sambandi með vísan til ,,fordæmalauss" hættuástands. Fjölmiðlasamsteypur með aðstoð yfirvalda stýra því sem við megum sjá og heyra, í því skyni að koma skilaboðum áleiðis, ýta undir ótta, viðhalda aga og úthrópa þá sem voga sér að spyrja gagnrýninna spurninga. Með þessu móti er leitast við að tryggja að allir gangi í takt, hugsi eins, tali út frá sama handriti og afhendi stjórnvöldum frelsi sitt og réttindi í skiptum fyrir falskt öryggi, þar sem líf einstaklingsins skiptir engu máli nema að því leyti sem hann telst gagnast valdhöfum.
Frammi fyrir þessari þróun þurfa allir frjálshuga menn að stíga niður fæti. Til þess má nýta ramma frjálslyndrar og lýðræðislegrar stjórnskipunar, meðan hún er enn við lýði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.