Íslensk alþýðuheimspeki hefur fágað ýmsa gullmola sem bera með sér djúpa visku, þar á meðal þennan málshátt: Betra er að maðurinn prýði embættið en embættið manninn. Að baki býr áhersla á að heilsteypt fólk veljist til ábyrgðarstarfa. Reynsla síðustu ára hefur sveigt mig óþægilega nærri þeirri ályktun að einn helsti vandi okkar nú á tímum sé í því fólginn að margar helstu stöður séu nú skipaðar ,,pappakössum", þ.e. tækifærissinnuðum framapoturum, sem eru svo innantómir og prinsipplausir að þeir belgja sig út með því að láta eins og þeir séu starfið sitt. Maðurinn í embættinu verður aukapersóna, innantómur, sviplaus, skoðanalaus, en um leið geðþekkur viðhlæjandi þeirra sem fara með völdin á hverjum tíma. Ekki má vanmeta þann einstaklingsbundna og samfélagslega harmleik sem slík gervimennska elur af sér, því við erum sköpuð til að vera frjáls og sjálfstæð, en ekki til að fela okkar sanna sjálf undir mælikeri annarra.
Maðurinn er annað og meira en það embætti eða starf sem hann gegnir. Þegar þetta gleymist skolast margt annað til í lífi fólks. Innri áttavitinn er ekki látinn ráða för heldur ytri fyrirmæli. Lífið fer þá að snúast um að þóknast öðrum til að koma sér í mjúkinn, hækka í tign o.s.frv. Þetta leiðir af sér að fólk svíkur sjálft sig, bregst æðstu gildum sínum og selur sálu sína fyrir veraldlegan framgang. (Sjá til samanburðar og áminningar Lúk. 4:5-8).
Afleiðingarnar af þessu birtast m.a. í afbökun staðreynda, skrumskælingu, falsi og öfugsnúningi. Dæmi: Inni á Alþingi sitja nú ýmsir þingmenn sem ekki bera næga virðingu fyrir þingræðinu og hafa með athöfnum sínum (og athafnaleysi) sýnt að þeim er illa treystandi til standa dyggan vörð um þennan hornstein stjórnskipunarinnar. Inni í dómskerfinu sitja nú ýmsir dómarar sem með athöfnum sínum (og athafnaleysi) hafa sýnt að þeim er ekki vel treystandi fyrir að verja grunngildi réttarins gagnvart ofríki valdhafa. Innan þjóðkirkjunnar starfar fólk sem virðist vera í þjónustu við sig sjálft fremur en Orð Guðs. Á fjölmiðlum starfa ýmsir blaðamenn sem virðast hirða meira um áróður en staðreyndir. Í fjölmiðlanefnd situr fólk sem vinnur gegn málfrelsinu. Í Sjálfstæðisflokknum, VG o.fl. gegnir fólk trúnaðarstörfum án sýnilegrar hollustu við stefnumál síns eigin flokks. Í embættismannakerfinu situr fólk telur sig hafa dýrari skuldbindingar gagnvart erlendum stofnunum en íslenskum skattgreiðendum eða íslenska lýðveldinu. Þessir sömu embættismenn fara með mikil völd þótt enginn hafi kosið þá, en á sama tíma láta kjörnir fulltrúar almennings sér nægja að leika hlutverk valdamanna. Peningar kaupa völd og hagsmunaaðilar velja strengjabrúður til að manna æðstu embætti. Þá er best að velja menn sem sjálfir hafa helst ekkert fram að færa, sem hengja sjálfsmynd sína á embætti sín og eru reiðubúnir að fórna sjálfsvirðingunni til að fá að dingla sem lengst inni á stóra sviðinu.
Guð blessi Ísland.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.