2.8.2023 | 05:55
Trójumenn nútímans?
Í desembermánuði 2021 átti ég þessar viðræður við Tómas Guðbjartsson í útvarpsþættinum Sprengisandi. Á þessum tíma hafði ég ítrekað hvatt til varúðar gagnvart þeirri samþjöppun ríkisvalds, peningavalds, kennivalds og fjölmiðlavalds sem raungerðist í ,,kófinu". Lesendur þessarar bloggsíðu eru hvattir til að hlusta á upptökuna og íhuga hversu vel málflutningurinn hefur elst, þ.e. minn annars vegar og Tómasar (+ þáttastjórnandans!) hins vegar.
Umræðuefnið var svo nöturlegt að helst hefði ég viljað hafa rangt fyrir mér og að viðvörunarorð mín hefðu reynst ástæðulaus. Því miður er þó annað að koma á daginn, sbr. þessa kynningu hér, sem virðist hafa verið haldin í þinghúsi ESB í gær, 1.8.2023. Lokaorðin eru hrollvekjandi og ættu að fá hárin til að rísa á öllum frjálshuga mönnum.
Í áðurnefndum útvarpsþætti hvatti ég hlustendur til að hafa augun opin fyrir þeim viðamiklu breytingum sem mögulega væru í farvatninu. Í því sambandi nefndi ég, í framhjáhlaupi, að uppnámið í kringum veiruna yrði hugsanlega notað sem einhvers konar Trjójuhestur til að innleiða hér nýtt og ólýðræðislegt stjórnarfar, þar sem valdboð og geðþótti stýrðu för. Þessi orð fóru fyrir brjóstið á hrekklausu fólki sem (ennþá) trúði því í einlægni að ríkisstjórnir, lyfjarisar, alþjóðastofnanir o.fl. væru grómlausir velunnarar almennings.
Trójumenn lögðu mikla orku í að byggja upp borgarmúra, en hrekkleysið varð þeim að falli í bland við óskhyggju um öryggi og frið. Fyrir vikið báru þeir ekki kennsl á hættuna sem fylgdi því að opna hliðin og hleypa Trójuhestinum inn.
Stjórnarskrár nútímans eru okkar borgarmúrar. Þeim er ætlað að koma böndum á óhefta valdbeitingu og verja borgarana fyrir ólögmætum afskiptum valdhafa, inngripum, eignaupptöku, frelsisskerðingum o.s.frv. Ólýsanlegar fórnir voru færðar til að koma þessu fyrirkomulagi á. Í hrekkleysi og óskhyggju höfum við viljað ímynda okkur að lýðræðisleg stjórnskipun sé tryggilega varin með þessu.
En þegar alþjóðastofnanir á borð við WHO rukka okkur um almenn mannréttindi í skiptum fyrir loforð um (falskt) öryggi, erum við þá jafn blind og Trójumenn til forna? Munu sögubækur framtíðarinnar afgreiða okkur sem hrekklausa kjána sem voru blindaðir af hræðslu og gengu sjálfviljugir í gin ljónsins fremur en verjast? Þegar vestræn menning hefur náð því hnignunarstigi að þykjast ekki sjá mun á konu (XX) annars vegar og hins vegar karli (XY) með varalit, þá er kannski ekki við því að búast að við þekkjum Trójuhest þegar hann birtist í nýrri mynd?
Ógnin sem við stöndum frammi fyrir er auðþekkjanleg öllum sem augu hafa til að sjá og eyru til að heyra: Græðgisvæðing laganna, samþjöppun valds, óttastjórnun, valdhroki og harðstjórn.
Ef menn fara ekki að vakna og stíga niður fæti gæti þessi vegferð hins yfirþjóðlega valds endað með viðnámslausri yfirtöku, þar sem stjórnarskrár verða klipptar úr sambandi og dýrmætustu hornsteinum vestrænnar stjórnskipunar sópað til hliðar um leið og öryggisventlar lýðræðis, valddreifingar og málfrelsis verða gerðir óvirkir.
Ég skora á þig, kæri lesandi, að sofna ekki á verðinum og undirstrika að Alþingi hafi ekki umboð til að leiða WHO til valda á Íslandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.