14.8.2023 | 07:53
Vindarnir eru að snúast
Með eigin augum geta Íslendingar séð í fréttum hvernig ráðherrar í ríkisstjórn Íslands gerast handbendi yfirþjóðlegra stofnana. Af handahófi má benda á að forsætisráðherra er orðin sendiherra velsældarverkefnis WHO, sbr. þessa tilkynningu 16.6. sl. Nú í sumar hefur utanríkisráðherra einnig komið fram sem talsmaður slíks yfirþjóðlegs valds, sbr. þetta viðtal 8.8. sl. þar sem hún réttlætti milljarða álögur ESB á skipaflutninga til Íslands með vísan til þess að þetta væri hluti ,,af háleitum markmiðum í loftslagsmálum sem Ísland taki þátt í".
Í nafni ,,friðar" og aukins ,,samstarfs" er kynnt undir ófriði og valdboði undir merkjum alþjóðastofnana. Í reynd er verið að koma á fót alþjóðlegri ríkisstjórn, þar sem ráðherrar í þjóðríkjum gerast skósveinar hins alþjóðlega valds. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni því þarna þjappast valdið saman á toppnum en venjulegt fólk hefur ekki annað hlutverk en að sitja á botninum og taka við skipunum að ofan. Ákvarðanir eru réttlættar með vísan til ,,hagsmuna heildarinnar" (e. the greater good), sem öll alræðisríki hafa notað til að fá þegna sína til að þola ofríki, skattpíningu, frelsisskerðingar, eftirlit, njósnastarfsemi o.fl. Við erum að horfa upp á alræðisstjórn í mótun, þar sem fámennur hópur auðmanna og valdamanna vill stýra skoðanamótun með aðstoð fjölmiðla og þeirra fyrirtækja / stofnana sem gengist hafa valdinu á hönd.
Með sama áframhaldi verður gengið að sjálfstæði okkar dauðu, bæði þjóða og einstaklinga. Þess vegna er tímabært að almenningur rísi upp til varnar og standi gegn því að þessar alþjóðlegu stofnanir fái meira vald, hvað þá eigin her eins og ESB hefur undirbúið sl. ár.
En almenningur er að vakna og sú vakning er raunar hafin, ekki síst fyrir framlag fólks eins og Oliver Anthony, sem skotist hefur upp á stjörnuhimininn úr bakgarðinum heima hjá sér með þessari beittu ádeilu á ruglið sem er í gangi, sjá hér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.