29.8.2023 | 07:42
Sá sem spillir heimili sínu mun erfa vindinn
Á bloggi Björns Bjarnasonar í gær, 28.8., má lesa tilraun BB til að drepa alvarlegu máli á dreif með því að beina athygli að aukaatriðum og fram hjá kjarna málsins sem hér um ræðir. BB veit manna best, að markmið Sjálfstæðisflokksins frá upphafi hefur verið að tryggja sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar samhliða einstaklingsfrelsi til orð og athafna. Samt sem áður kýs hann að sjá ekkert athugavert við frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Sú blinda BB er sérstök í ljósi þess að frumvarpið grefur undan fullveldinu með því að veikja lagasetningarvald Alþingis og þar með fullveldi og sjálfstæði Íslands. Sú þjóð er ekki frjáls og fullvalda sem ekki ræður lengur efni þeirra laga sem hún býr við og hefur undirgengist að greiða skaðabætur til yfirþjóðlegs valds ef hún setur lög í andstöðu við réttareininguna sem yfirvaldið krefst.
Fyrir flokksráðsfundinn og við upphaf hans óskaði ég eftir að fá að bera fram þá tillögu sem BB vísar til, en nú brá svo við að skipulag fundarins var í anda svonefnds Þjóðfundar sem haldinn var 2009 til að ræða um bankahrunið 2008. Eins og BB nefnir sjálfur þýddi þetta það að fundarmönnum var skipt í umræðuhópa. Fundarstjóri og þingflokksformaður beindu mér í einn slíkan hóp og BB lýsir því réttilega að menn hafi fjölmennt í tilvísaðan hóp um EES mál. Tillöguna bar ég upp á þessum vettvangi sem í anda Þjóðfundarins 2009 bar yfirbragð lýðræðislegrar umræðu, sem þó var í framkvæmd stranglega stjórnað og séð til þess að ekkert kæmist í gegn sem ekki var fundarstjóra umræðuhópsins og hans fólki þóknanlegt. Gamalreyndur Sjálfstæðismaður sem varð vitni að þessu líkti þessu, í mín eyru, við alræðistilburði gagnvart flokksmönnum og sagði þetta hægláta ögrun sem miðaði að því að ráðskast með fólk á útsmoginn og óviðfelldinn hátt.
Fundurinn var skipulagður á þann hátt að að formaður, varaformaður, ritari og þingflokksformaður fengu rúman tíma til að flytja langar ræður sem skertu um leið tíma almennra flokksmanna til frjálsrar tjáningar, sem þó ætti að vera mikilvægasti hluti svona fundar. Í stað þess að gefa orðið frjálst var farin sú leið að gefa fólki kost á að bera fram stuttar spurningar og þurftu menn að fara í röð til að geta þannig ávarpað flokksforystuna. Skipulag flokksskrifstofunnar var að þessu leyti mjög skýrt, en langar ræður urðu til þess að þegar loks kom að afgreiðslu stjórnmálaályktunar var klukkan langt gengin í sjö. Það er rétt hjá BB að á þeim tímapunkti las undirritaður salinn þannig að menn vildu flýta sér í auglýstan kokteil eða heim, auk þess sem þrír áreiðanlegir menn höfðu þá kælt mig niður með því að tjá mér að frumvarpið um bókun 35 yrði ekki lagt fram að nýju í haust. Í ljósi samþykktrar málamiðlunartillögu kaus ég að láta kyrrt liggja og líta svo á að hér hefði unnist ákveðinn varnarsigur.
Að því sögðu er skal hér áréttað, að komi þess að frumvarpið verði lagt fram aftur, þá væri það enn alvarlegra en fyrr í ljósi þeirra ábendinga sem fram hafa komið. Frumvarpið felur í sér tilraun til að færa æðsta valdþátt íslenska ríkisins undir erlend yfirráð. Slíkt er býsna alvarlegt í stjórnskipulegu tilliti.
Ef pólitísk sátt ríkti um það að íslensku löggjafarvaldi væri betur komið í höndum erlendra stofnana en hjá Alþingi Íslendinga, þá þyrfti að framkvæma slíkan valdatilflutning í réttri röð, með því að breyta stjórnarskránni að loknum kosningum um þetta atriði, sem Íslendingar myndu þó væntanlega aldrei samþykkja.
Alþingi hefur vítt og mikið valdsvið, en völd þess takmarkast þó augljóslega við það að lög þingsins verða alltaf að standast stjórnarskrá. Staðreyndin er sú að 1. og 2. gr. stjskr. standa í vegi fyrir því að löggjafarvald Alþingis sé framselt til erlendra stofnana. Alþingi brestur lýðræðislega heimild og stjórnskipulegt vald til að samþykkja frumvarpið um bókun 35. Ef BB og aðrir slíkir Sjálfstæðismenn ætla að halda áfram að mæla frumvarpinu bót mun Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál og fjölmargir sjálfstæðismenn (með stóru og litlu essi) koma stjórnarskránni og lýðveldinu til varnar. Sú vörn verður kröftugri en hingað til og dregið skýrt fram að hinn endanlegi mælikvarði á leyfilegt valdaframsal er stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en ekki tveggja stoða kerfi EES eins og það er fráleitlega orðað í stjórnmálaályktun flokksráðsfundarins 2023.
[Fyrirsögnin er úr Orðskviðunum og skýrir sig sjálf. Í Viðeyjarbiblíu (1841) er þýðingin jafnvel skýrari: ,,Hvör sem raskar sínu eigin húsi, mun erfa vind"]
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.