31.8.2023 | 07:49
Í stuttu máli
Í frjálsu samfélagi leyfist almennum borgurum að spyrja valdhafa gagnrýninna spurninga og veita valdhöfum lögmætt aðhald. Þetta er lýðræðislegt grundvallaratriði. Ríkisstarfsmenn hjá RÚV og Fjölmiðlanefnd virðast eiga bágt með að skilja þetta og veitast gegn gagnrýninni hugsun með því að saka efasemdafólk um að dreifa samsæriskenningum, falsfréttum, o.s.frv. Í frjálsu samfélagi heyrast alls kyns skoðanir, en í alræðisríkjum er aðeins ein rétt lína. Óttast starfsmenn Rúv og fjölmiðlanefndar frjálsa umræðu og nota orðið ,,upplýsingaóreiðu" til að stíga ofan á skoðanir sem víkja frá kennisetningum hinnar pólitísku ,,rétttrúnaðarkirkju"? Vonandi þýðir þetta ekki að RÚV og fjölmiðlanefnd standi í raun gegn lýðræðislegu stjórnarfari.
Ef þessar stofnanir vilja reka af sér slyðruorðið ættu þær að taka skýra afstöðu með tjáningarfrelsi og gegn hvers kyns ritskoðunartilburðum. Í stað þess að reyna sífellt að hafa vit fyrir fólki ættu þessar stofnanir og kjörnir fulltrúar sömuleiðis að treysta dómgreind fólks. Slíkt traust er hornsteinn lýðræðisins, þ.e. að kjósendum sé treystandi til að greina á milli þess sem er rétt og rangt, á milli sannleika og ósanninda, - og mynda sér frjálsa skoðun.
Samfélagi okkar er í vaxandi mæli stjórnað af óttaslegnu fólki sem undir yfirskini ,,sérfræðiþekkingar" vill að við veljum öryggi í stað frelsis og sjálfsábyrgðar. Halda mætti því fram að málflutningur þeirra beinist gegn frjálsri samfélagsgerð og vísi okkur inn á braut annars konar stjórnarfars sem kenna má við harðstjórn.
E.S. Áhugasömum er bent á þetta samtal okkar Gunnars Smára Egilssonar, sem birt var í gærkvöldi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.