1.9.2023 | 07:38
Íslenskir stjórnmálamenn starfa í umboði Íslendinga, ekki ESB
Lesendur eru hvattir til að kynna sér vandaða grein eftir Hjört J. Guðmundsson, sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Greinin ber heitið ,,Fullkomin uppgjöf". Greinin undirstrikar alvarleika frumvarpsins um bókun 35 sem lagt var fram sl. vor en verður vonandi aldrei lagt fram aftur. Lýsing Hjartar í niðurlagi greinar hans er svohljóðandi:
Versta mögulega staðan sem gæti komið upp, næði frumvarp utanríkisráðherra ekki fram að ganga og málið færi í kjölfarið fyrir EFTA-dómstólinn, væri sú að komizt yrði að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum bæri samkvæmt EES-samningnum að verða við kröfu ESA. Með öðrum orðum það sem frumvarpið felur í sér! Um fyrirfram uppgjöf er þannig að ræða án þess að látið sé í það minnsta reyna á málið fyrst fyrir dómi.
Málið minnir fyrir vikið að ýmsu leyti á Icesave-málið á sínum tíma. Þannig hafði ESA til að mynda í því máli líkt og nú, ekki gert nokkra athugasemd við innleiðingu á viðkomandi regluverki Evrópusambandsins hér á landi um langt árabil þegar stofnunin ákvað að gera mál út af því. Þá átti, líkt og nú, að gefast upp fyrirfram í stað þess að láta fyrst reyna á málið fyrir EFTA-dómstólnum þar sem Ísland hafði að lokum sigur.
Miklir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi í Icesave-málinu en málið snerist þó einungis um eina tiltekna löggjöf frá Evrópusambandinu. Tilskipun þess um innistæðutryggingar. Frumvarp utanríkisráðherra varðar hins vegar alla löggjöf sem hefur verið og mun verða tekin upp hér á landi í gegnum EES-samninginn og gerir hana í reynd æðri annarri almennri lagasetningu af þeirri einu ástæðu að hún kemur frá sambandinu.
Vert er að árétta það að lokum að ein af forsendum aðildar Íslands að EES-samningnum á sínum tíma var sú að bókun 35 yrði innleidd með þeim hætti sem gert var og það ekki að ástæðulausu. Að öðrum kosti hefði að öllum líkindum aldrei orðið af aðildinni. Málið er hins vegar í fullu samræmi við þróun samningsins á undanförnum árum þar sem sífellt hefur verið farið fram á meira framsal valds yfir íslenzkum málum.
Stjórnmálamenn eru kjörnir á þing til að verja hagsmuni lands og þjóðar gagnvart öðrum ríkjum, yfirþjóðlegum stofnunum, alþjóðlegum stórfyrirtækjum o.fl. Slíkri hagsmunagæslu er ekki sinnt með því sem Hjörtur kallar fullkomna uppgjöf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.