2.9.2023 | 08:40
Þegiði!
Eftir erfiðan vetur, þar sem ég stóð í ströngu á mörgum vígstöðvum, hafði ég þörf fyrir að komast út í óbyggðirnar til að hlaða batteríin í friði og ró, fjarri öllum skarkala. Eftir langt ferðalag komum við seint á veiðisvæðið. Í tilhlökkun gengum við niður að vatninu en þar mætti okkur þessi hörmulega sjón (sjá mynd); álft sem dýrbítur hafði bitið á barkann. Þótt syni mínum væri nokkuð brugðið sofnaði hann áreynslulaust og svaf vært alla nóttina. Í æsku sinni heldur hann kannski að þetta sé venjuleg sjón við bakka íslensks heiðarvatns. Kannski er ég viðkvæmari en hann, en þar sem ég hafði áður upplifað friðsælt fuglalíf fylltist ég mögulega meiri óhug en hann, a.m.k. svaf ég órólega og hrökk upp um miðja nótt við martröð, þar sem mér þótti grænklæddur maður standa uppi á Gullsteini ofan við kofann og hrópa með gjallarhorni yfir auðnina sama orðið aftur og aftur: Þegiði!.
Sveittur og órólegur lá ég kyrr og hlustaði eftir fuglunum í nóttinni, en heyrði ekkert, alls ekkert. Ekkert lauf bærðist, engin kind jarmaði, enginn fugl tísti. Kannski var það einmitt þessi drungalega þögn sem hafði vakið mig. Ég hlustaði eftir fallegasta nætursöng íslenskra heiða, þ.e. söng himbrimans, sem ekki lét heldur í sér heyra. Yfir mig helltust ónot sem héldu fyrir mér vöku lengi nætur.
Þegar ég sneri aftur til byggða, kveikti á útvarpi, las blöð og fréttir, helltust yfir mig sömu ónot. Gjallarhorn valdhafanna glymur í Ríkisútvarpinu, á Google, youtube, facebook o.s.frv. Skilaboðin eru þau sömu: Þegiði!. Unga fólkið telur þetta kannski eðlilegt, mögulega jafnvel réttmætt í nafni öryggis. Spurning mín er þessi: Af hverju segir eldra fólkið ekkert, kynslóðirnar sem notið hafa frelsis til orðs og athafna í öruggu skjóli fyrir viðurstyggilegum stjórnarháttum alræðisstjórna 20. aldarinnar? Getur verið að Solzhenitsyn hafi haft rétt fyrir sér þegar hann, í ávarpi í New York árið 1975, varaði Vesturlandabúa við andvaraleysi í þessum efnum með eftirfarandi orðum:
Getur einn hluti mannkyns lært af biturri reynslu annarra? Er mögulegt eða ómögulegt að vara einhvern við hættu? [ ] Stærilátir skýjaklúfarnir benda til himins og segja Slíkt mun aldrei gerast hér. Þetta mun aldrei henda okkur. Það er ómögulegt í okkar heimshluta.
Solzhenitsyn varpaði fram spurningu árið 1975, djúpt í sál hins vestræna heims til að kanna hversu djúp hún er: Getur verið að við munum ekki átta okkur á hættunni fyrr en á þeirri stundu sem hnífsblaðið leggst að hálsinum á okkur? Erum við svo græskulaus, svo skilningsvana, svo andvaralaus, að við ímyndum okkur að vargurinn nái ekki til okkar og leggjum höfuð undir væng án þess að nokkur standi vörð um líf okkar gagnvart ógnvaldinum sem vill þagga niður í okkur?
Á síðustu misserum gerðust mjög alvarlegir atburðir sem gjörbreyttu sambandi ríkis og borgara: Undir yfirskini sóttvarna og neyðarástands voru stjórnarskrár teknar úr sambandi, stjórnarfarið afbakað og mannréttindi fótum troðin í því skyni að innleiða nýtt stjórnarfar fámennisstjórnar, sérfræðingaræðis og ofríkis, allt undir því yfirskini að yfirvöld væru að vernda þegna sína þegar þau í raun voru að grafa undan því stjórnskipulagi sem þeim var þó falið að verja.
Hvað þarf til að Íslendingar (og aðrar vestrænar þjóðir) átti sig á aðsteðjandi hættu og skipi menn í það hlutverk að hafa vörð á þeim sem vilja þagga niður í okkur, valsa um sem handhafar sannleikans og eru jafnvel reiðubúnir að bíta okkur á barkann ef með þarf?
Vöknum við þegar fyrirmyndarríkið Noregur læsir mann inni á geðdeild fyrir að efast um gagnsemi töfralyfja? Vöknum við þegar ESB vill skikka aðildarríkin til að stofna sannleiksráðuneyti (í anda 1984) til að berjast gegn ,,upplýsingaóreiðu og hugsanaglæpum?
Í réttarríki ná lögin jafnt til allra. Í alræðisríkjum er þetta viðmið stokkað upp og framkvæmdavaldinu falið umboð til að nota lögin eins og sleggju gegn almenningi. Í verstu tilvikum afhjúpast þetta í því að fjölmiðlar, sérfræðingar, ráðherrar o.fl. snúast gegn réttarríkinu og skírskota til laga í því skyni að halda borgurunum í skefjum. Þegar svo er komið er réttarríkishugtakið ekki lengur hornsteinn réttarverndar, heldur er slíkum sjónarmiðum sópað í burtu í nafni laganna! Í Orwellísku þjóðfélagi, þar sem stríð er friður og svart er hvítt, þar eru lögin notuð til að mylja réttarríkið í frumeindir.
Frammi fyrir öllu þessu þarf að minna á að enginn er hafinn yfir lögin og að lögunum er með sama hætti ætlað að verja alla jafnt, líka þá sem eru leiðinlegir, þá sem efast og þá sem voga sér að spyrja leiðinlegra spurninga.
Í heilbrigðu samfélagi leyfist mönnum að eiga rödd. Margradda kór hljómar betur í sumarnóttinni en þrúgandi þögn þar sem enginn þorir að bæra á sér af ótta við ógnvaldinn sem fyrirskipar öðrum að þegja.
[Greinina í heild má lesa á Krossgötum, þar sem hún birtist fyrst 2.9.2023].
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.