3.9.2023 | 09:46
Leiðtogi leiðtoganna
Eftir nokkra daga hittast fulltrúar svonefndra G20 ríkja í Dehli undir blaktandi fánum með slagorðinu "One Earth, One Family, One Future" (,,Ein jörð, ein fjölskylda, ein framtíð"). Ef ske kynni að einhverjum þyki slíkt slagorð flytja með sér óþægilegan enduróm frá 4. áratug síðustu aldar, þá þurfa menn ekkert að óttast því allar slíkar samlíkingar eru óhaldbærar samsæriskenningar sem rétt er að banna. Gaman verður fyrir alla sanna vini frelsis, lýðræðis og mannréttinda, að fylgjast með samkomu þessara miklu leiðtoga heimsins, þar sem þeim gefst væntanlega góður tími til að ræða við úrval góðhjartaðra Davos manna, ,,woke" kvikmyndaleikara, rétthugsandi vísindamenn, góðviljaða auðmenn, auk sérvalinna og valdhlýðinna embættismanna.
Til að stytta biðina er hér brot úr ræðu sem leiðtogi hinna miklu leiðtoga flutti á G20 í fyrra. Myndbrotinu fylgir hættuleg umfjöllun bandarísks rithöfundar, sem m.a. mun hafa unnið sér það til óhelgis að hafa verið dónalegur við loftslagsvísindamenn með því að voga sér að draga kenningar þeirra í efa. Rithöfundur þessi gefur til kynna að markmiðið sé að rýra sjálfsákvörðunarrétt manna og þjóða, samhliða því að mikilvægustu ákvarðanir séu teknar án þess að almenningi gefist kostur á að tjá hug sinn til þeirra í kosningum.
Gaman verður að sjá hver skilaboð okkar mikla leiðtoga verða nú í ár, trúlega mun hann þó halda áfram að hamra sama járn og hann hefur gert síðan samtök hans voru stofnuð 1971. Ekki er hægt að segja annað en að starfsemin hafi fært honum mikinn persónulegan frama og auk þess straumlínulagað stjórnarhætti um allan heim í hans anda með því að lengja bilið milli almennings og stjórnvalda, auka miðstýringu, rýra völd almennings og auka veg miðstýrðs, alþjóðlegs og ólýðræðislegs valds. Til að kynnast þessum góða manni nánar má sjá fjöldan allan af leiftrandi ræðum hans á youtube, en fyrir þá sem engan húmor hafa fyrir þeirri snilld þá er hér stutt samantekt, tekin saman af jákvæðum aðdáanda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.