4.9.2023 | 10:48
Alþingi er ekki leikhús og dómstólar ekki heldur
Þegar ég las drottningarviðtal Morgunblaðsins við Helgu Völu Helgadóttur í gær 3.9.23 þurfti ég, eins og Njáll á Bergþórshvoli forðum, að lesa eina málsgreinina ,,þrem sinnum" til að meðtaka innihaldið.
Helga Vala segir:
Já, mér finnst pólitíkin skemmtileg, finnst hinn pólitíski leikur skemmtilegur [...]
[Innskot blaðamanns:] Þú ert náttúrulega lærður leikari ...
Já, þetta er leikhús, svona það sem snýr að almenningi. ÉG held að menntun mín hafi nýst vel þarna, bæi lögfræðin og leiklistin. Að kunna að beita röddinni, þekkja töfra þagnarinnar, hafa presens og ná valdi á salnum. Sem raunar á líka við í dómsal.
Þessar línur afhjúpa nöturlegan sannleika um stjórnmál Helgu Völu o.fl., en líka alvarlegan misskilning um málflutning fyrir dómi, sbr. eftirfarandi lýsingu sem undirritaður birti í Morgunblaðinu í ágústmánuði 2018. Athugasemdir í hornklofum eru ritaðar eftir lestur viðtalsins við HVH:
Réttarríki starfrækir dómstóla [og löggjafarþing] í þeim tilgangi að gera mönnum kleyft að binda friðsamlegan endi á ágreining sinn. Á vettvangi dómstólanna [og Alþingis] kemur rökræða í stað ofbeldis. Þetta er gert með vísan til þeirrar beisku reynslu að þar sem rökræðan þrýtur tekur valdbeiting oftar en ekki við. Með hliðsjón af slíkum staðreyndum má undrast það af hvílíkri léttúð menn treysta sér til að grafa undan rökræðu á opinberum vettvangi með afbökunum, útúrsnúningum, rökbrellum og leikrænum tilþrifum ýmiss konar. Því miður má enn finna dæmi þess að jafnvel alþingismenn falli í þessa djúpu gryfju.
Í málflutningi fyrir dómi [og í þingsal] opinberast fljótt munurinn á góðum málflytjendum og þeim sem stunda rökbrellur. Góður málflytjandi velur orð sín af kostgæfni og leitast við að byggja upp trausta röksemdafærslu. Rökbrellumaðurinn misnotar hugtök og hugsar meira um áhrif ræðunnar en inntak hennar.
Til að geta rökrætt þurfa menn að vera sammála um undirstöður samtalsins. Hvað er verið að tala um? Hverjar eru staðreyndir málsins? Tilfinningar eru ekki mælanlegar og upplifun fólks ekki heldur. Slík umræðuefni standa því fyrir utan svið eiginlegrar rökræðu. Setningar sem lýsa engu öðru en huglægri afstöðu fela ekki í sér röksemdir. Þannig er það t.d. ekki efnisleg röksemd að segjast vera móðgaður eða sár. Þegar slík sjónarmið koma fram er rökræðunni í raun lokið og annars konar samtal tekur við. Í stað þess að reyna að draga fram hlutlægar staðreyndir ræða menn þá um huglæg atriði á borð við þægindi og óþægindi, um tilfinningar en ekki rökleiðslu. Þótt slíkt samtal megi sannarlega fara fram lýtur það ekki lögmálum rökræðunnar. Tilfinningar er betra að ræða í einlægni og út frá hjartanu. Reyni menn klæða slíkt samtal í annan búning verður útkoman gervirökræða og endar oftast í hávaða.
Efnisleg rökræða kann að reynast mörgum óþægileg. Í dómsal [og í þingsal] mætast ólík sjónarmið og þar þurfa menn ekki aðeins að horfast í augu við gagnaðilann heldur einnig að hlusta á sjónarmið hans og röksemdir. Við slíkar aðstæður verður ekki með góðu móti hjá því komist að horfast einnig í augu við sjálfan sig og endurmeta þau orð og athafnir sem leitt hafa deiluna á þetta stig. Þótt allt geti þetta reynst mönnum tilfinningalega erfitt er staðreyndin sú að málflytjandi sem lýsir aðeins tilfinningum [og höfðar aðeins til tilfinninga] er ekki líklegur til að ná árangri í réttarsal. Vissulega er munur á því sem fram fer í dómsal og í stjórnmálunum. En er hið undirliggjandi markmið rökræðunnar ekki ávallt það sama? Miðar hún ekki að því að skerpa sýn þátttakenda og áheyrenda á sannleikann og leiða hann fram með röksemdum og tilvísun til staðreynda? Fyrir dómi krefst enginn lögmaður þess að dómarinn hlýði honum. Slík framsetning á heldur ekki rétt á sér í lýðræðislegu samhengi, er það? Fyrir dómi geta menn ekki reiðst þegar þeir eru leiðréttir. Rökvillur, misskilning og ranghermi ber að leiðrétta, ekki satt? Ef aðrar leikreglur ættu að gilda í stjórnmálum og fréttaflutningi væri illa fyrir okkur komið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.