Lýðræðis-einræði

Ef færsla mín hér í gær dugir ekki til að vekja menn til umhugsunar, þá er hér rúsínan í pylsuendanum: Ritstjórnargrein Vísis frá 13. mars 1946 um stjórnarhætti sem tíðkaðir voru í ráðstjórnarríkjunum en í stöðugt vaxandi mæli teknir upp hér á Vesturlöndum undir yfirskini lýðræðis, þótt í reynd beri þetta allt svipmót valdboðs og fámennisstjórnar þar sem almennir borgarar og almennir flokksmenn hafa það eina hlutverk að gjalda jáyrði við fyrirskipunum þeirra sem hönd hafa á valdataumunum.

Hafi þetta verið alvarlegt árið 1946 er nú verið að færa þessa óstjórn yfir á hærra og enn alvarlegra stig, þar sem ólýðræðislegar valdaklíkur hafa seilst til áhrifa innan alþjóðastofnana og vilja þaðan ráðskast með innri málefni þjóðríkjanna, þ.m.t. orkumál, umhverfismál o.fl. Þetta finnst Birni Bjarnasyni í góðu lagi, sbr. þessa færslu hans í dag, þar sem hann freistar þess að verja málstað þeirra sem í órökréttri þjónkun við ESB vildu að nauðsynjalausu innleiða regluverk hins svonefnda þriðja orkupakka og veikja þannig varnir Íslands þegar að því kemur að sæstrengur verður lagður til Íslands með þeim afleiðingum að Landsvirkjun verður seld hæstbjóðanda og orkuverð hér á landi skrúfað upp. Hugmyndafræði Björns Bjarnasonar og annarra sem þannig grafa undan hagsæld og sjálfstæði Íslands hefur þegar valdið miklu pólitísku tjóni. Hömlulaus innleiðing ESB reglna hérlendis er í raun trójuhestur sem gerir Ísland smám saman hluta af yfirþjóðlegu og ólýðræðislegu sambandsríki. 

Út frá viðvörunarorðum leiðara Vísis 1946 blasir við að stjórnmálin munu æ minna snúast um hvað eigi að gera og þess í stað snúast um hver taki ákvarðanir. Afleiðingarnar verða grafalvarlegar, bæði hagfræðilega og lýðræðislega. Ísland mun hægt og bítandi halda áfram að lokast inni í ósveigjanlegu stjórnarfari sambandsríkisins ESB, þar sem vinnuafli og fjármagni er stýrt með verndartollum o.fl. Lagareglur sem skaða íslenska hagsmuni verða áfram réttlættar með vísan til ,,heildarhags" (e. the greater good) og afleiðingarnar verða ekki þær að Ísland færist nær valdakerfinu, heldur munu auður og völd sogast frá Íslandi. Í stað þess að Ísland fái mikilvægan sess við háborð valdsins verður staða Íslands staðfest sem áhrifalaus útkjálki. En út frá títtnefndum leiðara Vísis má gera ráð fyrir að umræða um þessi atriði nái að óbreyttu aldrei upp á yfirborðið, a.m.k. ekki meðan stjórnmálaflokkarnir gerast stöðugt ólýðræðislegri og á meðan áróðursvélar í eigu ríkisvalds og hagsmunaaðila breiða út ótta, því óttaslegið fólk getur ekki hugsað rökrétt. Rökhugsun er ekki vel séð af þeim sem halda um valdataumana, því hún rýrir ,,samstöðuna" sem lýðræðis-einræðið grundvallast á. Slíkt getur enginn flokkur umborið - eða hvað? 

Lýðræðis-einræði

Lýðræðis-einræði 2


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband